Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrstu prófanir á bóluefni gegn zika-veirunni lofa góðu

17.02.2021 - 06:30
epa05152762 A yellow fever mosquito (Aedes Aegypti) is presented at a press conference from the Ministry of Science in Wiesbaden, Germany, 10 February 2016. The type is considered the main carrier of the Zika virus, which is currently spreading primarily
 Mynd: EPA - DPA
Fyrsta bóluefnið sem þróað hefur verið gegn zika-veirunni lofar góðu. Fyrstu prófanir á efninu, sem þróað var í Bandaríkjunum, benda til allt að 80 prósenta virkni.

Fjallað er um efnið og frumprófanirnar á því í bandaríska læknavísindatímaritinu Annals of Internal Medicine. Þar segir að efnið hafi verið prófað á 100 fullorðnum sjálfboðaliðum og að mótefni hafi mælst í 80 þeirra tæpu ári eftir bólusetningu. Fram kemur að engar alvarlegar aukaverkanir hafi sýnt sig í þessari fyrstu, fámennu lyfjatilraun, en þörf sé á mun fjölmennari og ítarlegri rannsóknum til að sannreyna virkni og öryggi bóluefnisins.

Zikaveiran berst einkum í fólk með biti moskítóflugna, en þess eru einnig dæmi að hún smitist með samförum.  Veiran er sérlega hættuleg þunguðum konum, því hún getur orsakað alvarlega fósturskaða.

Mikill zika-faraldur braust út í Mið- og Suður-Ameríku snemma árs 2015, geisaði fram eftir næsta ári og teygði anga sína til Asíu og Afríku. Langflest tilfelli greindust í Brasilíu, þar sem um 1,5 milljónir smituðust af veirunni og þúsundir barna fæddust með dverghöfuð og vanþroskaðan heila (microcephaly).