Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fullviss um að staðan batni með nýrri menntastefnu

17.02.2021 - 20:41
Mynd með færslu
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.  Mynd: RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, kveðst fullviss um að staða drengja í skólakerfinu eigi eftir að batna á næstu árum, verði ný menntastefna til næstu tíu ára samþykkt.

Staða drengja í menntakerfinu hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu misseri. Þeir geta síður lesið sér til gagns og lægra hlutfall þeirra lýkur framhalds- og háskólaprófi. Lilja kveðst vilja að menntakerfið sé í fremstu röð og að Ísland hafi alla burði til að svo verði. Lögð hafi verið áhersla á að jafna stöðu allra kynja. 

Stóra atriðið þegar komi að námi sé áhugi. „Við verðum að kveikja neistann og áhugann þannig að allir upplifi sig sem þátttakendur í menntakerfinu,“ sagði hún í viðtali í Kastljósi í kvöld. Eitt það mikilvægasta sé að allir geti lesið sér til gagns. 

Allsherjar- og menntanefnd Alþingis er að fjalla um nýja menntastefnu til næstu tíu ára. Menntamálaráðherra segir að í stefnunni sé lögð áhersla á að það geti allir blómstrað í menntakerfinu. Þá segir hún að gagnlegt sé að umræðan um menntakerfið sé virk. Rannsóknir sýni að í þeim samfélögum þar sem farið sé í gegnum slíka umræðu og mikil áhersla lögð á menntun, þeim samfélögum vegni betur. Til dæmis hafi finnsk stjórnvöld ákveðið árið 1951 að vera með menntakerfi í fremstu röð. 

Hér má horfa á viðtalið í heild sinni.