Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Frakkland: Lög sett til höfuðs íslömskum öfgahópum

17.02.2021 - 19:12
Blóm lögð við minnisvarða við Bataclan-tónleikahúsið í síðustu viku. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Frönsk yfirvöld fá auknar heimildir til að loka bænahúsum sem ýta undir hatur og ofbeldi, samkvæmt lagafrumvarpi sem neðri deild franska þingsins samþykkti í gær. Sérfræðingur í málefnum Frakklands segir mikilvægt að stöðva öfgahópa sem hafi sterk ítök í nokkrum hverfum borga landsins.

250 manns hafa látið lífið af völdum hryðjuverkaárása íslamskra öfgamanna frá árinu 2015, sem er meira en í öðrum vestrænum ríkjum. Nýju lögin eiga að sporna gegn þessum öfgahópum.

Meðal ákvæða eru auknar heimildir til að loka bænahúsum og banna starfsemi trúarsamtaka ef þau ýta undir hatur eða ofbeldi. Refsivert verður að hóta opinberum starfsmanni til að bæta eigin hag og skilyrði fyrir heimakennslu barna verða hert. Þá þurfa fyrirtæki að birta alla styrki yfir tíu þúsund evrum til að fjármögnunin verði sýnileg.

Skiptar skoðanir eru um frumvarpið. „Í frumvarpinu er tilhneiging til að glæpavæða, eða í það minnsta tortryggja, alla íslamska borgara vegna trúariðkunar sinnar, 4 sem gerir lögin einstök í lýðveldinu,“ segir Nagib Azergui stofnandi félags lýðræðissinnaðra múslima í Frakklandi.

„Ég held ekki að ríkið sem slíkt vilji gera múslima tortryggilega. En til eru stjórnmálamenn sem gætu notað þetta til að setja þennan blett á múslima í pólitískum tilgangi,“ segir Chems-Eddine Hafiz, rektor stærstu mosku Parísar.

Torfi Tuliníus prófessor, sem þekkir vel til í Frakklandi, segir frumvarpið vera ákveðin skilaboð stjórnvalda um að spornað verði gegn þessum hópum. Þau séu með hugann við forsetakosningarnar sem verða á næsta ári. 

„Frumvarpið lýsir alls kyns áhyggjum sem margir meðal Frakka hafa, að samfélagið sé einhvern veginn að liðast í sundur,“ segir Torfi. Ástæðan sé að trúfélög, sérstaklega tengd íslam, stofni í auknum mæli hópa gegn lýðræðisgildum Frakklands.

Torfi segir gagnrýnendur telja að ekki sé tekið á rót vandans í frumvarpinu. „Sumir segja að það væri nær að vinna gegn mismunun og fátækt til að koma í veg fyrir að þessi fáránlegu og hættulegu viðhorf breiðist út í samfélaginu.“

Frumvarpið á eftir að fara í gegnum efri deild og stjórnlagadómstól. Torfi býst við að það verði samþykkt með breytingum, þó ekki miklum. Hann bendir á að íslamskir öfgahópar hafi mikil ítök í nokkrum hverfum í borgum Frakklands. „Og kannski er mjög mikilvægt að þessi aðstaða sem þeir eru komnir í, að þeir misnoti hana og til þess eru þessi lög sett.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV