Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forðumst að vera frjálsar manneskjur

Mynd: - / Borgarleikhúsið

Forðumst að vera frjálsar manneskjur

17.02.2021 - 13:36

Höfundar

Kristín Jóhannesdóttir tekst á við áhugaverða mótsögn í leikritinu Sölumaður deyr. „Við eigum í rauninni enga von um að komast úr því fangelsi sem okkur er varpað í með því að fæðast nema með því að viðurkenna að við erum ófrjáls.“

Á laugardag verður frumsýnt á stóra sviði Borgarleikhússins leikritið Sölumaður deyr eftir bandaríska leikskáldið Arthur Miller. Þetta er eitt þekktasta leikverk 20. aldar, frumsýnt í Philadelphiu í Bandaríkjunum 1949. Það fjallar um brostnar vonir, drauma sem ekki rættust, sjálfsblekkingu og lífslygi. Arthur Miller sló í gegn með verkinu og hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir það.

Jóhann Sigurðarson fer með hlutverk sölumannsins og eiginkonu hans, Lindu, leikur Sigrún Edda Björnsdóttir. Þau fagna bæði 40 ára leikafmæli. Gyða Valtýsdóttir semur tónlistina og þýðingin, sem er ný, er eftir Kristján Þórð Hrafnsson.

Willy Loman er í öðru hverju húsi

Sölumaður deyr fjallar um Willy Loman, mann sem er kominn að leiðarlokum í annasömu lífi og verður ljóst að draumar hans hafa ekki ræst. „Þetta er í grunninn verk um áfallastreitu,“ segir Kristín Jóhannesdóttir sem leikstýrir verkinu. „Maðurinn hrynur þegar hann áttar sig á því að hann er orðinn úreltur og honum er sagt upp. Lífsviðurværið og sigurdraumarnir sem hann hafði dreymt fyrir sig og sérstaklega eldri son sinn, það var tekið frá honum.“

Í átökum sínum við eigin fjölskyldu kemst sölumaðurinn að því að eitthvað er að lífsskoðunum hans og óhóflegum vonardraumum um milljón dollara hugmyndir, segir Kristín. „Það er það sem ég áttaði mig á við fyrsta lestur. Við erum að horfa á tragedíu hins venjulega manns, eins og Miller kallaði þetta verk sjálfur, og þetta er eitthvað sem er í gangi núna. Við lesum um þetta á hverjum degi í blöðunum. Við gerðum það líka í hruninu og eftir það varð okkur ljóst að við höfðum lifað í ótrúlegum blekkingarheimi einhverra markaðslögmála, að markaðurinn myndi bara bjarga okkur. Það var í sjálfu sér milljón dollara hugmynd. Síðan missa menn fótanna, missa allt sitt, eru ófærir um að skaffa, ófærir um að vera fyrirvinnur og heimurinn hrynur.“

Willy Loman er ekki bara enn á meðal okkar heldur er hann í öðru hverju húsi segir Kristín. „Nú er það bara hinn venjulegi maður, þetta eru ekki einhverjar stórar fjármálahetjur eða konungar grísku harmleikjanna, heldur bara þessar klassísku hugmyndir um meðalmann sem dreymir um að vinna í lotteríinu.“

Lokum okkur í búrum til að forðast frelsið

Það sem Kristín sækir beint í verkið í uppsetningu sinni í Borgarleikhúsinu er sú árátta mannsins að leika hlutverk í lífinu. „Við erum alltaf að leika hlutverk,“ segir hún. „Sölumaðurinn lýsir því svo dásamlega hvernig hann hannar sitt hlutverk. Hann verður að klæðast og tala á ákveðinn hátt, hann verður að segja ákveðnar sögur og gera litla hluti til að heilla fólk í kringum sig. Þetta er náttúrulega hlutverk leikarans. Þetta sló mig mjög strax í byrjun.“

Óvenjuleg innkoma nýrrar persónu undir lok verksins, þjónsins Stanleys, varð til þess að Kristín staldraði við. „Þetta gera leikritahöfundar ekki, þeir kynna ekki til sögunnar persónur sem hefur aldrei verið minnst á áður og leika afgerandi hlutverk.“ Hún leitaði því í eigin minni eftir einhverju sem hún kannaðist við og rambaði á lausnina í tilvistarstefnu Jean-Pauls Sartres. „Hann notar í Veru og neind þjóninn, sem er alltaf að leika hlutverk, til þess að sýna fram á að við erum ekki í rauninni við sjálf. Við erum að leika hlutverk í lífinu og reyna að forðast að vera frjálsar manneskjur og taka ákvarðanir sem við sjálf. Við erum í rauninni að forðast að vera frjáls, að reyna að loka okkur inni í búri til þess að þurfa ekki að taka þær ákvarðanir sem verða til þess að endurskapa líf okkar á hverjum degi.“

Willy Loman eltir hinn margþvælda ameríska draum sem snýst í andhverfu sína. „Allir áttu þennan möguleika, að láta milljón dollara drauminn rætast,“ segir Kristín. „Þetta var líka draumurinn okkar á sínum tíma og var flutt inn mjög fljótlega hingað til lands. Við höfum síðan verið í einhverri leit að hamingju í þessu lífi, höll undir þetta. Það er kannski neysluhamingjan sem er í fyrirrúmi, ekki það að vera hamingjusamur maður í sínu æskilegasta umhverfi sem hentar hverjum og einum. Þetta er líka hluti af verki Millers.“

Engin raunveruleg skil milli innra og ytra lífs

Kristín hefur áður sett upp verk eftir Miller, Horft frá brúnni, árið 1999 hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þegar hún er beðin að lýsa Miller sem leikskáldi og hvert hann sótti áhrif nefnir hún Henrik Ibsen, höfuðskáld Norðmanna. Miller aðlagaði einmitt eitt af þekktari verkum Ibsens, Þjóðníðing.

„Mér þótti merkilegt sem hann sagði í sambandi við það: Allir snillingar eru takmarkaðir af þeim tíma sem þeir lifa á og því samfélagi sem þeir lifa í,“ segir Kristín. „Þessu áttaði hann sig sjálfur strax á. Seinna talar hann um þetta, að hann eigi eftir að líða undir lok en rísa svo upp aftur. Þetta er einhver hringhreyfing þessarar sögu, þessa lífs. Fólk fer hring eftir hring, á sitt líf og dauða en upprisu líka.“

Það er með ólíkindum hvað Miller var þegar orðin fært leikritaskáld þegar hann samdi Sölumaður deyr. Í því birtist draumur hans um að losna úr viðjum raunsæisins, segir Kristín. „Hans fyrsta hugmynd var að láta þetta allt gerast inni í höfði sölumannsins. Í rauninni hvarf hann aldrei frá þessari hugmynd ... Þarna eru mjög óskýr skil, ef nokkur skil, á milli óra, drauma, vona, endurminninga og raunveruleikans. Þetta flæðir fram og tilbaka án þess að menn geti í rauninni sett skil þarna á milli. Þetta er í rauninni stærsta afrek Millers í þessu verki. Þetta féll í mjög góðan jarðveg hjá mér, vegna þess að ég er sjálf hrifnust af draumaraunsæinu sem slíku. Það eru engin raunveruleg skil á milli innra lífs mannsins og ytra lífs.“

Tengdar fréttir

Leiklist

Lamin í Bankastræti af hneyksluðum áhorfanda

Menningarefni

„Þetta er þjóðfélagsmein“