Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fangelsun Latifu prinsessu í rannsókn hjá SÞ

epa09018025 (FILE) - Vice President and Prime Minister of the United Arab Emirates (UAE), and ruler of the Emirate of Dubai Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum (R) and his wife Princess Haya bint al-Hussein of Jordan (L) during the Dubai World Cup 2016 at the Meydan race course in Gulf emirate of Dubai, United Arab Emirates, 26 March 2016 (reissued 17 February 2021). The daughter of Dubai's ruler, Princess Latifa, has appeared in what seems to be a secretly recorded video, claiming that she is being detained in Dubai by her father. The video was obtained by the Free Latifa campaign, run by her friend Tiina Jauhiainen.  EPA-EFE/ALI HAIDER
Faðir Latifu prinsessu ásamt Haya prinsessu. Myndin var tekið 2016. Mynd: EPA-EFE - EPA
Sameinuðu þjóðirnar ætla að krefja fulltrúa Sameinuðu arabísku furstadæmanna um svör við því hver sé staða dóttur leiðtoga Dúbaí sem jafnframt er forsætisráðherra og varaforseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Í gær voru birt myndskilaboð sem Latifa bint Mohammed Al Maktoum, prinsessa af Dúbaí, tók upp með leynd og sendi stuðningsmönnum sínum. Hún segist vera í stofufangelsi og óttast um líf sitt.

„Ég er gísl og þessu einbýlishúsi hefur verið breytt í fangelsi. Neglt hefur verið fyrir alla glugga. Ég get ekki opnað neinn þeirra,“ segir Latifa prinsessa í myndskilaboðunum. 

Latifa bint Mohammed Al Maktoum er 35 ára en var aðeins sextán ára þegar hún reyndi fyrst að flýja. Í febrúar 2018 reyndi hún aftur, þá sjóleiðina til Indlands. Átta dögum síðar réðst indverska leyniþjónustan um borð. 

Faðir Latifu, Mohammad bin Rashid Al Maktoum sjeik, er ekki aðeins hæstráðandi í Dúbaí heldur einnig forsætisráðherra og varaforseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Myndskeiðin sendi Latifa til vina sinna sem standa fyrir herferð um frelsun hennar. Þau náðu að smygla til hennar síma ári eftir að hún var handsömuð. 

Latifa segir að henni sé haldið í einangrun. Hún fái ekki læknisaðstoð. Þá hafi hún hvorki verið ákærð né dregin fyrir dóm. „Ég hef áhyggjur af öryggi mínu og lífi míni. Ég veit í raun ekki hvort ég lifi þetta af,“ segir hún í myndskilaboðunum.

Í gærkvöldi voru myndskilaboðin hætt að berast. Vinir Latifu eru mjög áhyggjufullir og báðu Sameinuðu þjóðirnar að skerast í leikinn. Það hafa þær nú gert.

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, segir að myndskilaboðin valdi miklum áhyggjum. Augljóst sé að konan sé í miklum vanda.

Talsmaður Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna sagði í samtali við BBC að fljótlega yrðu spurningar lagðar fyrir Sameinuðu arabísku furstadæmin um Latifu prinsessu. Núna væri verið að rannsaka myndskilaboðin. 

Mynd með færslu
Latifa prinsessa.
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV