Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Etna gýs á nýjan leik

17.02.2021 - 21:00
Erlent · Eldfjall · eldgos · Etna · Ítalía · Landhelgisgæslan · Sikiley
Mynd: EPA-EFE / ANSA
Opnað var á ný fyrir flugsamgöngur á Sikiley á Ítalíu í dag eftir enn eitt gosið í eldfjallinu Etnu. Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar þurfti að leita skjóls vegna öskufalls.

Etna er virkasta eldfjall Evrópu. Vísindamenn vakta hana vel og voru því viðbúnir eldgosinu sem hófst seinni partinn í gær. Öll flugumferð á Sikiley var stöðvuð um tíma, meðal annars frá Catania-flugvellinum á eyjunni. 

Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar hafði hraðann á og kom vélinni í skjól í flugskýli á Sikiley...

Posted by Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard on Þriðjudagur, 16. febrúar 2021

 

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, er eitt þeirra loftfara sem eldgosið hafði áhrif á. Á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar er greint frá ævintýrum Sifjar, sem sett var í skjól í flugskýli á Sikiley til að verja hana öskufalli. 

Áhöfnin á Sif sinnir landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópu, og áhöfnin var nýlent á Sikiley eftir eftirlitsflug þegar Etna rankaði við sér. 

Fyrir utan öskufall olli eldgosið ekki teljanlegum skemmdum eða búsifjum. Eldgosin í Etnu eru alla jafna mikið sjónarspil og draga að sér fjölda ferðamanna ár hvert. Eða gerðu það alla vega fyrir heimsfaraldurinn. 
Enda eru íbúar í nágrenninu öllu vanir. 
 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV