Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eiginkona Kims Jong-un sést í fyrsta sinn í heilt ár

17.02.2021 - 09:35
epa04983608 An undated picture released by Rodong Sinmun newspaper, the state-run North Korean newspaper of the ruling Workers Party, on 19 October 2015 of North Korean leader Kim Jong-un (3-R) and his wife Ri Sol-ju (4-R), along with members of an all
Kim Jong-un og eiginkona hans Ri Sol-ju. Þessi mynd var birt 2015 en ekki er vitað hvenær hún var tekin. Mynd: EPA - YONHAP / RODONG SINMUN
Ri Sol-ju, eiginkona Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sást í fyrsta sinn á almannafæri í heilt ár í gær. Frá því er sagt í frétt breska ríkisútvarpsins. Þar eru birtar myndir af þeim hjónum úr ríkissjónvarpi Norður-Kóreu. Hjónin mættu saman á tónleika til heiðurs látnum föður leiðtogans sem hefði átt afmæli í gær. Ri Sol-ju sást síðast í janúar í fyrra og hefur getum verið leitt að því að hún kunni að vera barnshafandi og glími við heilsubrest.

Í frétt BBC er haft eftir leyniþjónustunni í Suður-Kóreu að Ri Sol-ju hafi forðast að koma fram opinberlega þar sem hún hefði áhyggjur af kórónuveirufaraldrinum. Hún hafi því kosið að verja tíma með börnum sínum. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa þó haldið því fram að enginn hafi smitast af veirunni í landinu en þær fullyrðingar eru dregnar í efa.

Á myndum sjást hjónin sitja saman og hlæja. Þá virðast öll sæti full í salnum og enginn er með grímu. 

Eins og alkunna er berast litlar upplýsingar frá einræðisríkinu Norður-Kóreu. Þannig er ekki vitað hvenær Ri Sol-ju giftist Kim Jong-un sig en talið er að það hafi verið 2009 og að hjónabandið hafi verið ákveðið í flýti eftir að Kim Jong-il, faðir Kims Jong-un og þáverandi leiðtogi Norður-Kóreu, fékk heilablóðfall. Þau eru talin eiga þrjú börn saman.