Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

CLN-málið í sjötta sinn til kasta dómstóla

Mynd með færslu
Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson mæta í Landsrétt. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fyrsti dagur réttarhalda yfir helstu stjórnendum Kaupþings fyrir hrun fór fram í Landsrétti í dag. Ákært er fyrir umboðssvik en sakborningar voru sýknaðir í héraði. Dómsmálið hefur flakkað milli dómstiga í rúmlega hálfan áratug með sýknudómum, frávísun og ómerkingum.

Allur fyrsti dagur þessara síðustu réttarhalda vegna hrunsins fór í að hlusta á upptökur af skýrslum sakborninga úr Héraðsdómi Reykjavíkur. Síðan hafði verið gert ráð fyrir tíma þar sem hverjum og einum sakborninga gæfist færi á að gefa viðbótarskýrslu.

Engu við að bæta

Það kom dómara nokkuð á óvart þegar Hreiðar Már Sigurðsson sagðist engu hafa við að bæta og hvorki verjendur né saksóknari beindu spurningum til hans. Hreiðar Már áskildi sér þó rétt til að ávarpa réttinn í lok réttarhaldanna á föstudag. Að loknum skýrslutökum yfir Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni kom upp sama staða. Hvorugur hafði neinu nýju við að bæta og engar spurningar voru lagðar fyrir þá. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Hreiðar Már Sigurðsson á leið í dómsal.

Langt ferli

Allir þeir sem tengjast málinu, fyrir utan ef til vill dómarana, eru farnir að þekkja vel til málsins. Það hefur lengi verið til meðferðar í kerfinu. Héraðssaksóknari gaf út ákæru árið 2014 og í janúar 2016 voru sakborningarnir þrír sýknaðir. Í október næsta ár ómerkti Hæstiréttur hins vegar dóminn og fyrirskipaði frekari rannsókn. Héraðsdómur vék málinu frá dómi 2018 áður en Hæstiréttur ómerkti frávísunina og fyrirskipaði efnislega meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Því lauk með sýknudómi í júlí 2019, rétt eins og hafði gerst þremur og hálfu ári fyrr. Saksóknari áfrýjaði málinu til Landsréttar og nú fyrst er farið að sjá fyrir endann á því. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar.

Umboðssvik eða barátta gegn háu skuldaálagi?

Dómsmálið snýst um lánveitingar sem félög í eigu vildarviðskiptavina bankans fengu skömmu fyrir hrun. Saksóknari ákærði fyrir umboðssvik en sakborningar segja að lánin hafi aðeins verið hluti af aðgerðum til að styrkja stöðu bankans. 

Skuldatryggingaálag á Kaupþing hækkaði mjög árið 2008 og sögðust Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson hafa verið sannfærðir um að fjárfestar væru að keyra upp skuldatryggingaálag í von um að græða á því. Það kæmi bankanum hins vegar illa og ekki væri innstæða fyrir svo háu skuldatryggingaálagi. Ráðgjafafyrirtækið Kroll var fengið til að rannsaka málið en fann ekkert sem studdi slíkar ásakanir. Stjórnendur Kaupþings töldu sig hins vegar hafa traustar upplýsingar frá öðrum, svo sem starfsmönnum Deutsche Bank. Þeir hefðu lýst því hvernig skuldatryggingaálagi væri haldið uppi og komið með tillögu að því hvernig vinna mætti gegn því.

Vildarviðskiptavinir gátu grætt en ekki tapað

Úr varð að Deutsche Bank gaf út skuldatryggingar á Kaupþing í samvinnu við bankann. Ólafur Ólafsson, Kevin Stanford og fleiri voru fengnir með í leikinn sem átti að lækka skuldatryggingaálag á Kaupþing. Félög í þeirra eigu fengu lán til að kaupa skuldatryggingaálagið án þess vildarviðskiptavinirnir legðu neitt fram nema nöfn sín. Ólafur var einn stærsti eigandi bankans. Ef allt gekk upp myndi skuldatryggingaálag lækka, viðskiptavinirnir græða og Kaupþing fá allt féð til baka. Sakborningar sögðu fyrir rétti að eina leiðin fyrir Kaupþing að tapa á viðskiptunum hefði verið ef bankinn færi á hausinn. Það hefði verið talið útilokað á þeim tíma. 

Niðurstaðan varð þó sú að skömmu síðar féll Kaupþing, eins og hinir íslensku bankarnir. Það sem átti upphaflega að vera 250 milljóna dollara lánveiting var komin í 510 milljónir dollara vegna veðkalla. Deutsche Bank lánaði í upphafi helming fjárins en hafði samið um að Kaupþing yrði að yfirtaka lánin eða tryggja nýtt fjármagn ef skuldatryggingaálag hækkaði á ný, sem það gerði. 

Bankastjórnendurnir lögðu áherslu á í skýrslunum, sem voru spilaðar í dag, að bankinn hefði ekki getað farið í aðgerðirnar sem Deutsche Bank lagði til vegna skuldatryggingaálagsins nema með aðkomu viðskiptavina. Kaupþing hefði því þurft að útvega viðskiptamenn sem þýski bankinn tæki gilda í viðskiptunum. Þess vegna hefði það gerst að bankinn hefði tekið á sig áhættuna (sem stjórnendur töldu enga vera) meðan viðskiptamennirnir áttu að geta hagnast vel án þess að leggja nokkuð fram til viðskiptanna. Að auki hefðu starfsmenn Kaupþings haft fulla stjórn á öllum félögum sem komu að viðskiptunum og því ráðið hvað yrði um eignir þeirra.