
Bensínlítri hefur hækkað um nærri 11 krónur undanfarið
Á vef FÍB segir að Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) með Sáda í broddi fylkingar hafi dregið úr olíuframleiðslu. Það megi rekja til þess að Íran og Sádi Arabía hafi styrkt andstæðar fylkingar í borgarastyrjöldinni í Jemen.
Eftirspurn eftir olíu hafi sömuleiðis aukist vegna bjartsýni um að nú sjái fyrir endann á COVID-19 faraldrinum, einkum í Asíu. Morgunblaðið greinir frá því í dag að hæsta bensínlítraverð á Íslandi nálgist nú 240 krónur, án tillits til afsláttarkjara.
Verðið fór yfir 240 krónur í janúar á síðasta ári en lækkaði fljótt og mikið næstu mánuðina á eftir að því er fram kemur á vefnum Gasvaktin. Eftir mitt ár tók eldsneytisverð að hækka að nýju.
Hæsta dísilolíuverð á höfuðborgarsvæðinu núna er tæpar 226 krónur samkvæmt upplýsingum á vef FÍB.