Aukin bjartsýni eftir fund með Sjúkratryggingum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar segir að loks sé að komast skriður á yfirtöku ríkisins á rekstri hjúkrunarheimila eftir að fjögur sveitarfélög sögðu samningunum upp á síðasta ári. Málin hafi skýrst nokkuð á fundi með Sjúkratryggingum Íslands í morgun.

Akureyrabær var eitt fjögurra sveitarfélaga sem sögðu upp samningum við ríkið um rekstur hjúkunarheimila. Vestmannaeyjabær, Sveitarfélagið Hornafjörður og Fjarðabyggð tóku sömu ákvörðun.

Mikil óvissa og erfitt að fá upplýsingar 

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrarbæjar í gær kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð Sjúkratrygginga við yfirtökuna á þessum rekstri. Mjög erfitt hafi verið að fá upplýsingar um hvað taki við eftir að samningur bæjarins rennur út í apríllok. „Algjör óvissa er því enn ríkjandi um hver kemur til með að reka heimilin frá og með 1. maí nk. en mikilvægt er að þeirri óvissu verði eytt án tafar vegna allra þeirra sem hlut eiga að máli þ.e. íbúa, aðstandenda og ekki síst starfsfólks sem á rétt á að njóta öryggis og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi sínu,“ segir meðan annars í bókun bæjarstjórnar.

Fengu svör við ýmsum spurningum á fundi í morgun

Í morgun áttu fulltrúar Akureyrarbæjar fund með Sjúkratryggingum um þessi mál og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir að þar hafi málin skýrst nokkuð. „Það liggur fyrir að það eru komnir áhugsamir aðilar um reksturinn og það er verið að vinna í því að hálfu Sjúkratrygginga. Við fengum líka ýmis svör á fundinum í morgun er snúa að starfsmannamálum, sem er afar mikilvægt að leysa á þessum tímapunkti. Það liggja fyrir ýmisverkefni í starfsmannamálum, meðal annars sumarafleysingar og svo þarf að fara að vinna mál er snúa að styttingu dagvinnutíma vaktavinnufólks. Þetta eru hlutir sem við vorum að kalla eftir og fengum ágæt svör við á fundinum í morgun. 

Vonar að vinnubrögin séu að breytast til batnaðar

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa lýst miklum áhyggjum af því að ríkið verði ekki tilbúið að taka við rekstri hjúkrunarheimilanna af bænum eins og samið hefur verið um. Guðmundur segir að á fundinum í morgun hafi verið samþykkt að leggja fram verkáætlun um hvernig að því skuli staðið og hann er bjartsýnn á að það gangi eftir. Fram til þessa hafi ríkt ákveðið ráðaleysi af hálfu Sjúkratrygginga um hvernig þar eigi að taka á þessum málum. „En við skulum vona að þetta sé að breytast og við séum að fara að sjá markvissari vinnnubrögð og við sjáum þetta mál klárast á farsælan hátt fyrir alla.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV