Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Afreksvæðing undir hatti valdeflingar“

17.02.2021 - 09:14
Viðar Halldórsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands. - Mynd: RÚV / RÚV
„Þarna var verið að afreksvæða íþróttir barna. Þarna eru öll einkenni þess sem við höfum hafnað í íþróttastarfi á Íslandi og víðast hvar í heiminum,“ segir Viðar Halldórsson félagsfræðingur um heimildamyndina Hækkum rána. Kvikmyndin fjallar um þjálf­un­ar­að­ferðir ungra körfuknatt­leiks­stúlkna og valdeflingu í íþróttum.

Viðar var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann skrifaði pistil um heimildamyndina í Kjarnann í gær þar sem hann gagnrýndi harðlega þær aðferðir sem þjálfarar beittu við þjálfunina.

Úrelt aðferðafræði

Þjálfunaraðferðin sem myndin sýnir byggir á miklum og þungum æfingum og miklum kröfum. „Það sem er sérstakt við þetta er að þetta er ekkert nýtt eða merkilegt, bara gömul úrelt aðferðafræði sem við erum búin að hafna. En núna er hún sett upp í nafni femínisma og þá á hún að vera allt í lagi. Og ég er að benda á þetta í greininni,“ segir hann. „Þarna var gríðarleg sérhæfing, gríðarlega miklar æfingar. Þarna voru morgunæfingar og seinnipartsæfingar, æfingar voru langar og alls konar greiningarfundir með miklu álagi, líkamlegu og andlegu,“ segir hann.

„Þessi aðferðafræði er ekki boðleg fyrir börn á Íslandi í dag,“ bætir hann við. 

Afreksvæðing undir hatti valdeflingar

Viðar segir ljóst að tilgangurinn á bak við aðferðina sé að skapa atvinnumenn, snillinga framtíðarinnar. „Þetta eru 8-11 ára stúlkur og þarna er verið að afreksvæða börn undir hatti valdeflingar. Kvikmyndin rammaði þetta inn sem valdeflingu fyrir stúlkur og gleymdi alveg hinni hliðinni, afreksvæðingu,“ segir Viðar.

„Öll reynsla sýnir að slík stefna skilur eftir sig sviðna jörð. Ég hef heyrt að það hafi verið talsvert um meiðsl og mikið brottfall í þessum hópi og sár í foreldrahópum,“ segir Viðar og lýsir andrúmsloftinu á vellinum: „Það er ákveðinn hroki, keyrt yfir andstæðinga á vellinum sem mega sín lítils,“ segir hann. 

„Og hvað með hinar?“

Viðar segir að aðferðin feli í sér sérvalið kerfi þar sem sumar stúlkur fái tækifæri. „Og varðandi valdeflingarhlutann, það voru nokkrar sem komu fram í myndinni og virkuðu mjög sterkar, en hvað með allar hinar? Er í lagi að valdefla 5-6 stúlkur og skilja allar hinar eftir sem einhvers konar aumingja?,“ spyr hann. 

„Eftir að greinin kom út hef ég fengið skilaboð frá foreldum sem segja að þetta sé nákvæmlega það sem er að gerast þarna. Ég hef fengið staðfestingu á öllu sem fram kemur í greininni. Og síðan hún birtist hef ég frekar fengið sterkari sannfæringu fyrir því hvað þetta er alvarlegt. Ég hef fengið þakkir frá þessum foreldrum,“ segir hann. 

„Við verðum að leyfa börnunum okkar að vera börn, þau eru ekki litlir fullorðnir,“ segir Viðar: „Það er fallegt og göfugt að valdefla stelpur í gegnum íþróttir, en það er það sem íþróttahreyfingin er að gera á hverjum degi. Það þarf ekki að beita svona aðferðum.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV