Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill sjálfstætt starfandi heilsugæslu til Suðurnesja

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, spurði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag hvort til greina kæmi að sjálfstætt starfandi heilsugæsla fengi að starfa á Suðurnesjum, til að vinna á bið eftir þjónustu líkt og gert hafi verið á höfuðborgarsvæðinu með góðum árangi. Ráðherrann telur að það þurfi að stíga mjög varlega til jarðar í þessum málum.

Fyrirkomulagi á fjármögnun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu var breytt árið 2017 og sagði Vilhjálmur í fyrirspurn sinni að fyrir þann tíma hafi verið umræða um skort á heilbrigðisstarfsfólki og biðlista. Samið hafi verið við sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar til að fá aukið val fyrir notendur. Hann segir langa bið einnig hafa verið á Suðurnesjum og að hluti Suðurnesjamanna sæki sér þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. 

Ráðherra sagði í svari sínu að fjármögnun til heilsugæslunnar hafi aukist um 25 prósent og að uppbygging heilsugæslunnar hafi verið í algjörum forgangi í hennar embættistíð. Fjármögnunarlíkanið hafi reynst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu. „Um leið þurfum við að vega það og meta frá ári til árs, það er til að mynda hversu þungt tilteknar breytur vega, ég nefni til dæmis félagslega þætti og fleiri þætti,“ sagði heilbrigðisráðherra. Víða um land séu áskoranir aðrar en á höfuðborgarsvæðinu, svo sem fjarlægð frá heilbrigðisþjónustu og mönnun starfa. 

Meta þarf áhættu af því að hafa tvö kerfi

„Mín persónulega skoðun er sú að á meðan við erum í uppbyggingarfasa fyrir heilsugæsluna, á meðan við erum að auka hlutverk hennar, þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar að því er varðar aðra rekstraraðila. Við þurfum að meta þörfina í hvert skipti. Við þurfum líka að meta þá áhættu sem felst í því að vera með fleiri en eitt kerfi í gangi þegar mönnunaráskoranirnar eru eins miklar og raun ber vitni,“ sagði Svandís í svari sínu til þingmannsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi

Vilhjálmur sagði að lengi hefði verið mönnunarvandi á Suðurnesjum þó að þar hafi ekki verið sjálfstætt starfandi heilsugæsla. Ákveðið hefur verið að byggja aðra heilsugæslustöð á Suðurnesjum en að það taki töluverðan tíma að byggja hana. „Núverandi heilsugæslu, sem rekin er af hinu opinbera, tekst ekki að manna. Við sjáum að hér á höfuðborgarsvæðinu tókst að manna stöðvarnar og svara eftirspurn með því að fjölga sjálfstætt starfandi,“ sagði Vilhjálmur. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sé sammála um að ekki sé hægt að bíða á meðan verið er að byggja nýja heilsugæslustöð. „Því held ég að fljótvirkasta lausnin til að sinna heilsugæslunni og byggja hana hratt og örugglega upp, og manna hana, sem er stór áskorun á Suðurnesjum, sé að gera samstarfssamning við sjálfstætt starfandi og hafa þá fjölbreytt rekstrarform á Suðurnesjum.“