Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Um helmingur sýna hefur nú borist frá Danmörku

Mynd með færslu
 Mynd:
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að nú hafi borist niðurstöður helmings þeirra leghálssýna sem send voru til Danmerkur eftir að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók við skimun af Krabbameinsfélaginu um áramótin.

Óskar átti fund með Dönunum í morgun en fjöldi svara barst þaðan í gær. Hann hafði lýst nokkrum áhyggjum vegna þess hve seint niðurstöður skimana bárust þaðan.

Óskar segir svör og viðbrögð Dananna sýna að góður gangur sé í greiningu sýnanna. Vandamálið segir Óskar helst liggja í hve seint sýnin fóru af stað en hrósa megi því að hafa náð að yfirfara helming sýna á tveimur vikum. 

Hann segir sumar þeirra kvenna sem beðið hafa niðurstaðna þegar hafa fengið tilkynningu og unnið sé að því að koma skilaboðum til annarra. Óskar telur að eitthvað verði komið fram í mars þegar síðustu svörin berast en að í apríl og maí verði vinnan miklu skilvirkari, rafrænni og öruggari. 

„Nú erum við inni í ferlinu hjá þeim en byrjað var á þeim sýnum sem merkt eru sem forgangssýni. Því gekk aðeins hægar með hin,“ segir Óskar. Hann áréttar að skimun sé metin sem rannsókn á heilbrigðum einstaklingum og því sé mikilvægt að mæta í skimun og að allt umtal sem skapi öryggi sé gott.

Bólusetning og einfaldari skimun

Óskar segir að nú sé auðvelt að bóka skimun á netinu, að boðið sé upp á hana víðar í nærumkvæminu og  fleiri taki sýni. Tekið hafi verið til við að bólusetja tólf ára stúlkur gegn HPV-veirunni haustið 2011. Það sé veiran sem sé helsti orsakavaldur forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi. 

Óskar segir almenna bólusetningu minnka líkurnar á krabbameini í leghálsi og því fækki þeim sýnum sem fylgja þurfi eftir. Með bólusetningum í forvarnarskyni, skimun og skjótri greiningu megi jafnframt minnka líkurnar á leghálskrabbameini verulega. 

Mat Óskars er að með því að skjótri greiningu og mikilli þátttöku náist bestur árangur í baráttunni við HPV-veiruna. Hann kveðst vilja að þátttaka í skimun aukist en þegar líði á ári verðið betur hægt að greina hve mikil hún er.

Ný aðferð segir Óskar að geri þeim konum sem ekki vilja mæta á rannsóknarstöð í skimun kleift að gera það heima fyrir með einföldum hætti. Stefnt sé að því að slík heimaskimun verði í boði hérlendis þegar líður á árið.