Typpið fær nýtt hlutverk

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Typpið fær nýtt hlutverk

16.02.2021 - 18:21

Höfundar

Typpi eru af öllum stærðum og gerðum. Lítil, stór, digur, mjó, stutt, skökk og löng. Í sjónvarpsþættinum Kynþroskinn er fjallað um þetta merkilega kynfæri sem fær nýtt hlutverk á kynþroskaskeiðinu: að búa til börn.

Þegar drengir nálgast ellefu eða tólf ára brestur kynþroskaskeiðið á og þá byrja eistun að framleiða kynhormónið testósterón. Það er efnaboðberi sem segir líkamanum að strákur eigi að verða maður. Eistun byrja að stækka og ljós þunn hár vaxa. Typpið byrjar líka að lengjast og þykkjast en það er afar mismunandi hvenær þetta gerist hjá drengjum. Typpið er oftast fullvaxið um 17 ára aldur.

Fremst á typpinu er forhúðin og ef hún er toguð aftur kemur kóngurinn í ljós. Hann er einn næmasti hluti líkamans því þar er þétt net tauga. Forhúðin hefur það hlutverk að vernda taugarnar.

Eistun framleiða yfir 200 milljónir sæðisfrumna á dag og til þess að sæðisfrumur komist út úr typpinu þarf það að verða hart. Þegar typpið verður hart er talað um standpínu, stinningu eða holdris og á kynþroskaskeiðinu gerist það nokkuð oft hjá drengjum, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Kynþroskinn er á dagskrá öll mánudagskvöld á RÚV. Hægt er að horfa á síðasta þátt hér