„Þetta má ekki hverfa fyrir pastaréttum og lassagne“

16.02.2021 - 21:10
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Í dag er síðasti dagur fyrir lönguföstu og þá gildir að borða vel af saltkjöti og baunum. Kokkur á Akureyri segir mikilvægt að gamlar hefðir verði ekki látnar víkja fyrir pasta og lasagna.

Þriðjudagurinn í föstuinngangi heitir á íslensku sprengidagur eða sprengikvöld. Þá gæða margir margir landsmenn sér á saltkjöti og baunasúpu - hefð sem margir vilja halda í heiðri. 

Mikilvægt að drekka vel af vatni með saltkjötinu

„Kjöt og kjötsúpa, saltkjöt og baunir, kótilettur í raspi, fiskibollur og þetta. Þetta má ekki alveg hverfa fyrir pastaréttum og lassagne og slíku. Þetta er íslenskt,“ segir Baldvin Sigurðsson, kokkur á Akureyrarflugvelli. 

Hann segir mikilvægt að fólk borði vel af saltkjöti á Sprengidaginn. Fólk verði bara að muna að vökva sig vel á eftir.  „Á sprengidaginn þá á maður að borða of mikið. Maður þarf bara að drekka svolítið af vatni eða kaffi, seinni partinn.“

„Ég er hrifinn af öllu íslensku“

Á veitingastaðnum Vitanum á Akureyri stóð fólk í röðum til að fá að gæða sér á þessu salta góðgæti. „Þetta er alveg rosalega gott. Ég er hrifinn af öllu íslensku.“

Og borðar þetta oft á ári?

„Já er ný búinn að halda svona veislu sjálfur, heima,“ sagði Brynjólfur Snorrason viðskiptavinur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Á Akureyri í dag