Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Stelur frá Louvre til að mótmæla nýlendustefnu

Mynd: wikicommons / wikicommons

Stelur frá Louvre til að mótmæla nýlendustefnu

16.02.2021 - 20:00

Höfundar

Stærstu söfn Evrópu gera upp blóði drifna nýlendufortíð. Hollendingar hafa heitið því að skila stolnum listmunum en kongólski aktívistinn Mwazulu Diyabanza lætur verkin tala með því að stela gripunum aftur til baka.

Nýlega tilkynnti hollenska ríkisstjórnin að öllum stolnum listmunum frá nýlendutímanum verði skilað aftur til síns heima. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrrum nýlenduherrar taka jafn skýra afstöðu til umræðunnar um endurheimt menningarminja til fyrrum nýlenduríkja.

Hollenska stjórnin hyggst fylgja loforðinu eftir í samvinnu við helstu sérfræðinga sína á sviði safnamála. Jos van Beurden, einn sérfræðinganna, segir yfirlýsinguna marka tímamót og vera mikilvægt uppgjör við fortíðina.

Í skjalinu sem fylgir yfirlýsingu stjórnvalda segir meðal annars að nú verði í fyrsta sinn opinberlega viðurkennt, að nýlenduþjóðir hafi verið beittar miklu óréttlæti þegar herraþjóðirnar námu á brott menningarverðmæti, gegn þeirra vilja. Vegna þess valdaójafnvægis sem ríkti á nýlendutímanum, hafi menningarverðmæti mjög oft verið tekin ófrjálsri hendi. Þeim hafi einfaldlega verið stolið. Hlutverk nefndarinnar sem hollenska stjórnin hefur skipað verður að fara yfir allar umsóknir um endurheimt minja, sem berast frá fyrrum nýlendum, og meta hvort tilteknum listmunum hafi verið stolið eða ekki. Ef svo reynist vera, verður tilteknum grip skilað, tafarlaust.

En nýju reglurnar ná ekki einungis til þeirra muna sem vitað er að eru stolnir, heldur hyggjast Hollendingar skila öllu til síns heima, sé þess á annað borð óskað. Þau ríki sem óska eftir að fá menningarminjar sínar til baka, þurfa þar að auki ekki að sýna fram á tilbúið sýningarrými undir gripina, en það hafa hingað til verið ein helstu rökin gegn endurheimt minja, það að gripirnir verði ekki öruggir í sínu upprunalega umhverfi. Menningarmálaráðherra Hollands, Ingrid van Engelshoven, hefur sagt að þrátt fyrir að nýlendutíminn sé liðinn þá sé hann til staðar í huga margra. Þess vegna þurfi að nálgast minjarnar á mjög nærgætinn hátt. Ekkert pláss sé í söfnum Hollands fyrir stolna muni. Vilji fyrrum nýlendur fá menningarminjar sínar aftur, þá verði þeim skilað.

Hollendingar eignuðu sér landssvæði víða um heim allt frá byrjun 17. aldar og stofnuðu nýlendur í Asíu, Afríku, Suður-Ameríku og Norður-Ameríku. Ljóst er að þetta er mikið magn listmuna, sem finna má í mörgum söfnum. Eitt stærsta safn Hollands, the Dutch National Museum of World Cultures, eða hollenska heimsminjasafnið, er eitt af fyrstu evrópsku söfnunum til að setja sér vinnureglur um endurheimt menningarminja. Árið 2019 setti safnið af stað 4,5 milljóna evra rannsóknarverkefni tengt safneigninni, en um 40% allrar safneignarinnar kemur frá fyrrum nýlendum, alls um 450.000 listmunir.

Holland er vitanlega ekki eina Evrópulandið sem þarf að horfast í augu við blóði drifna fortíð, þar sem nýlendustefnan gerði arðrán og stuld á menningarminjum að eðlilegu athæfi. Macron Frakklandsforseti hefur tekið harða afstöðu með endurheimt minja, ólíkt fyrirrennurum sínum sem ávallt komu sér undan slíkum fyrirheitum eða skuldbindingum. Árið 2017 útnefndi Macron senagalska fræðimanninn Felwine Sarr og franska listfræðinginn Benedicte Savoy, til að gera úttekt á afrískum minjum á frönsku söfnum. Ári síðar var niðurstaðan sú að skila ætti öllum stolnum munum. Í júni á síðasta ári voru fyrstu minjarnar tilkynntar; 26 gripir frá Benín.

Þessir tilteknu gripir frá Benín hafa lengi vel verið hluti af umræðunni um endurheimt menningarminja. Ástæðan er sú að þeir eru brot af þeim agnarsmáa hluta, af hundruðum þúsunda muna, sem auðveldlega er hægt að rekja, eða sanna, að hafi verið teknir ófrjálsri hendi. Þegar Frakkar hertóku það landssvæði í Vestur-Afríku sem nú kallast Benin, svæði sem áður kallaðist Dahomey, steyptu þeir Behanzin konungi af stóli, hertóku höllina og stálu öllu steini léttara, ekki bara úr höllinni heldur öllu landinu. Talið er að alls hafi um 4500-6000 munum verið stolið sem nú eru á víð og dreif um heiminn, í söfnum eða einkaeigu. 26 þessara muna voru í höll konungs þegar franski hershöfðinginn réðst þar inn árið 1892, munir sem tengdust konungi, tákn um stétt hans og stöðu, meðal annars hásæti og vopn. Gripirnir eru í París í dag, í etnógrafíska safninu Musee de quai Branly, en það er einmitt eitt þeirra safna sem hefur sætt harðri gagnrýni, því líkt og á við um önnur etnógrafísk söfn byggist safneign þess á menningararfi fyrrum nýlenda.

Eins og fyrr sagði þá hefur Macron heitið því að skila þessum munum og Hollendingar loks tekið yfirlýsta afstöðu sem gæti verið fyrsta skrefið í átt að því að ríki sem voru arðrænd fái menningararf sinn til baka. Það eru þó ekki pólitíkusar heldur aktívistar sem hafa verið hvað duglegastir við að vekja máls á skammarlegum uppruna fjölda listmuna evrópskra safna. Og þar fer kongólski menningarminja-aktivistinn Mwazulu Diyabanza fremstur í flokki.

Diyabanza er ættaður og uppalinn í Kongo, en hefur búið í Frakklandi síðustu ár. Hann fer fyrir hópi aktívista sem kalla sig Yanka Nku, en yfirlýst stefna þeirra er að endurheimta öll menningarverðmæti sem nýlenduþjóðir stálu af ríkjum Afríku. Diyabanza gagnrýnir fyrirætlanir Macrons um að skila mununum 26 frá Benín harðlega, þar sem þetta sé einungis um lítið brot af þeim þúsundum minja sem Frakkar stálu. Að hans mati eiga Frakkar ekki að ákveða hverju sé skilað og hvenær, heldur þjóðirnar sem eiga munina.

Diyabanza hefur verið kallaður Hrói höttur menningararfsins því hann stundar það að fara á helstu söfn Frakklands og ganga þaðan út með afríska listmuni. Hann hefur í kjölfarið hlotið dóma og háar sektir en hann segist ekki vera að stela neinu, enda geti franska ríkið ekki átt neina muni sem teknir voru eignarnámi á sínum tíma. Markmiðið er svo sem ekki að komast frá söfnunum með gripina, heldur að vekja athygli með gjörningunum, sem alltaf eru teknir upp á myndband sem svo er dreift á samfélagsmiðlum.

Nú síðast var Diyabanza tekinn fyrir að stela á Louvre-safninu. Atvikið átti sér stað í október síðastliðnum og var tekið upp á myndband þar sem hann sést í félagi við fjóra aðra, taka afríska höggmynd af stalli sínum og ganga út af safninu, en verðir safnsins handtóku þá áður en þeir komust úr byggingunni.

Diyabanza, sem einnig hefur verið sektaður fyrir að taka muni úr etnógrafíska safninu í Marseille og París, fékk skilorðsbundinn dóm og 5000 evrur í sekt fyrir gjörninginn í Louvre, en hann hyggst áfrýja dómnum. Og það eru ekki bara stóru söfnin sem aktívistarnir hyggjast vekja athygli á, heldur stefna þau á minni söfn, gallerí og jafnvel einkasöfn. Og þeir einblína ekki bara á Frakkland. Diyabanza hefur nú þegar gert tilraun til að stela styttu frá Kongó úr hollensku safni, en náðist áður en hann gekk út og fékk í kjölfarið tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm auk 250 evru sektar.

Nokkuð vægir dómar hingað til, sem, líkt og Diyabanza bendir á í samtali við Guardian, gefur til kynna að dómararnir taki til greina að ekki sé um eiginlegan þjófnað að ræða heldur pólitísk mótmæli. Og hvorki sektir né dómar eiga eftir að stöðva hópinn sem segist stefna á Spán, Þýskaland, Portúgal, Vatíkanið og Bretland næst. Enda sé þar um auðugan garð að gresja þegar komi að táknrænum ránsfengum. Hann segir söfnin aðeins vera þeirra fyrsta skotmark, því listmunir séu ekki það eina sem nýlenduherrar hafi stolið frá kúguðum þjóðum um allan heim, heldur einnig landið sjálft með öllum sínum auði. Málmum, eðalsteinum og lífríki.

Það er ekki lítið verk fram undan hjá Diyabanza sem virðist hvorki hræðast háar sektir né frelsissviptingu. Enda varpa gjörningar hans ekki aðeins ljósi á blóði drifna söguna sem helstu menningarstofnanir Evrópu hýsa, og rukka fyrir það aðgangseyri, heldur varpa þeir einnig ljósi á viðbrögð kerfis, sem kannski ber enn leifar nýlendustefnunnar.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Um stórar byltingar í litlu þorpi

Myndlist

Hver gerir Trump ódauðlegan?

Stjórnmál

Forsetakappræður og tilgangsleysi lífsins