Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikilvægt að rannsókn sé vel afmörkuð

16.02.2021 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Velferðarnefnd Alþingis ætlar að kalla fulltrúa lagaskrifstofu Alþingis og fulltrúa forsætisráðuneytis á sinn fund á næstunni til að fara yfir minnisblað forsætisráðuneytis, síðan í byrjun mánaðar, um rannsókn á vistheimilinu Arnarholti og öðrum sambærilegum heimilum. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, segir að ákvörðun um næstu skref verði tekin fljótlega.

Starfsfólk á Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki þar í vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld og var fjallað um málið í fréttum í nóvember.

Velferðarnefnd Alþingis fékk minnisblað forsætisráðuneytis afhent í byrjun þessa mánaðar. Þar segir að umfang rannsóknar geti orðið gríðarlega mikið. Í minnisblaðinu er ekki tekin afstaða til þess hvort skipa skuli rannsóknarnefnd á vegum Alþings eða stjórnsýslunefnd á vegum forsætisráðuneytis til að rannsaka aðbúnaðinn í Arnarholti og á öðrum sambærilegum heimilum.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Helga Vala segir að farið verði yfir minnisblað forsætisráðuneytis með fulltrúunum tveimur til að geta tekið ákvörðun um næstu skref. Skoðaðir verði kostir og gallar þessara tveggja leiða, annars vegar þess að skipa rannsóknarnefnd á vegum Alþingis og hins vegar að skipa stjórnsýslunefnd á vegum forsætisráðuneytis. Hún kveðst telja að öll þau sem að ákvörðuninni komi telji mikilvægt að afmarka rannsóknina vel svo hún taki ekki áratugi. Fljótlega verði skoðað hver sé besta leiðin að fara við slíka rannsókn og hvernig hægt verði að afmarka hana. Þess sé ekki langt að bíða að ákvörðun verði tekin.