Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mál Gráa hersins gegn TR til efnismeðferðar

16.02.2021 - 17:00
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því síðdegis í dag að vísa frá dómi máli þriggja félaga Gráa hersins gegn Tryggingastofnun og íslenska ríkinu á grundvelli athugasemda sem ríkið hafði uppi í greinargerð sinni og lutu að því að stefnendur skorti lögvarða hagsmuni í málinu. Grái herinn eru baráttuhópur innan félags eldri borgara sem berst fyrir auknum réttindum eldri borgara.

Málið er tækt til efnismeðferðar eftir að dómari málsins hafnaði þessum athugasemdum í dag eftir munnlegan málflutning 29. janúar.

Með málshöfðun þriggja félaga í Gráa hernum er þess krafist að viðurkennt verði að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið óheimilt að skerða ellilífeyri þeirra samkvæmt lögum um almannatryggingar og heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð vegna greiðslna sem þau nutu út skyldubundnum atvinnutengdum lifeyrissjóðum. Samanlagðar skerðingar þessar nema 56,9% af greiðslum umfram 25.000 kr. á mánuði.

Skerðingu greiðslanna telur Grái herinn brjóta gegn stjórnarskrá og  viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og er vísað til nokkurra dóma Hæstaréttar, Landsréttar og yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þær uppfylli ekki kröfur um lögmæti, réttmæti og meðalhóf, enda eru greiðslurnar grundvöllur framfærslu eftirlaunamannsins. Það er Málshöfðunarsjóður Gráa hersins sem tryggir fjármagn til málssóknarinnar, en fjölmörg félög eldra fólks um land allt hafa lagt málinu lið. Þá hefur almenningur og verkalýðsfélög stutt sjóðinn. Sérstaklega hefur munað um framlag Verslunarmannafélags Reykjavíkur til málsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gráa hernum.