Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Línumenn heppnir að lenda ekki í snjóflóði

16.02.2021 - 12:23
Snjóflóð á Fagradal 15. febrúar 2021.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Línumenn Landsnets horfðu á snjóflóð falla Vopnafjarðarlínu á sunnudag og voru heppnir að lenda ekki í flóðinu sjálfir. Enn er hætta á snjóflóðum og ekki hægt að komast til viðgerða nema með þyrlu í fyrsta lagi á morgun.

„Voru í hættu“

„Á aðfaranótt sunnudags fór Vopnafjarðarlína 1 út. Það kom upp bilun á línunni. Okkar menn fóru á svæðið á sunnudaginn og þá kom í ljós slitin festing. Það voru mjög erfiðar aðstæður á svæðinu og erfitt að fara um. Þeir höfðu farið upp á sleðum til að komast að viðgerðarstaðnum og það fellur flóð við hliðina á þeim. Þeir voru ekki í flóðinu sjálfu en menn voru þarna í hættu. Þannig að það var ekki hægt að fara í viðgerð á sunnudeginum og Vopnafjörður var áfram keyrður á varaafli,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

Ekki hægt að fljúga í dag

Þar sem enn er snjóflóðahætta er ekki þorandi að senda línumenn á snjósleðum eða snjóbílum upp á Hellisheiði eystri. Landsnet átti fund með Landhelgisgæslunni í morgun um möguleika á að ferja línumenn upp með þyrlu. „Viðgerð tekur svona fjóra klukkutíma þannig að það skiptir máli að það sé gluggi þar sem hægt er að fljúga bæði upp á heiði og af heiðinni. Eins og staðan er í dag þá lítur ekki út fyrir að það verði hægt að fljúga. Þannig að við erum að skoða aðrar leiðir. En númer eitt tvö og þrjú er að það fer enginn inn á svæðið á meðan hættan er til staðar,“ segir Steinunn.

Hefðu ekki geta brætt loðnu nema með olíukötlum

Varaaflið dugar ekki til að knýja uppsjávarbræðslu Brims á Vopnafirði en fyrsta loðnan er væntanleg þangað eftir hádegi. Ekki þarf þó að ræsa olíukatla í bræðslunni því svo vill til að loðnan er orðin hrognafull og verður því ekki brædd heldur heilfryst á japansmarkað.

Línan á að vera komin í jörð á næsta ári

Steinunn segir að Landsnet undirbúi að leggja jarðstreng í stað vandræðakaflans á Vopnafjarðarlínu. „Það er gert bæði til að tryggja afhendingaröryggi á svæðinu og ekki síst að styggja öryggi okkar fólks. Þetta er sem sagt í undirbúningi núna. Og við stefnum á að þessu ljúki ef allt gengur 2022,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir