Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landsmenn hafa nýtt sér 24 milljarða séreignarsparnaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Allt hafa verið teknir út rétt liðlega 24,5 milljarðar í séreignarsparnað frá því í apríl 2020 til og með janúar 2021. Þetta kemur fram í svari frá Skattinum við fyrirspurn fréttastofu. 

Úttekt séreignarsparnaðar er meðal þeirra úrræða sem stjórnvöld réðust í til að bregðast við efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins.

Hverjum og einum, óháð aldri, er heimilt að taka út allt að tólf milljónir af sparnaði sínum sem dreifist á fimmtán mánuði frá því að sótt er um.

Útgreiðslan nemur því um 800 þúsundum króna á mánuði og greiddur er tekjuskattur af þeirri fjárhæð sem greidd er út.

Meginreglan er sú að séreignarlífeyrirssparnaður sé bundinn til sextíu ára aldurs en þá er úttekt hans frjáls. Fjöldi þeirra sem hefur nýtt sér úrræðið mánaðarlega frá því í apríl í fyrra er á bilinu um tólf hundruð til tæplega sjö þúsund.

Flestir tóku út sparnað sinn í maí eða 6.869 en fæstir nú í janúar þegar 1.196 gerðu það. Heimildin til ráðstöfunar séreignarsparnaðar hefur ekki áhrif á greiðslur almannatryggingabóta, húsnæðis-, barna-, vaxta- eða atvinnuleysisbóta.

Greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skerðast ekki heldur vegna úttektar séreignarsparnaðar.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar- og fræðslu hjá Íslandsbanka, segir í hugleiðingu á vef bankans að dýrmætt geti verið að nýta sér séreign til að komast gegnum fjárhagslega erfiðleika en hvetur til þess að íhuga þörfina fyrir úttekt gaumgæfilega.