Fagnar því að fjármagn fylgi hverju verki

16.02.2021 - 20:23
Björn Zoëga forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi fagnar því að taka eigi upp svokallað DRG fjármögnunarkerfi á Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Akureyri. Langflest Evrópulönd byggi á kerfinu. 

Framlög til Landspítalans hafa frá árinu 2015 aukist úr 50 milljörðum í 80 milljarða í ár. Þrátt fyrir ríflega 21 prósents fjölgun starfsfólks í skrifstofu- og stoðstörfum á tímabilinu hefur framleiðni minnkað. Þetta segir í skýrslu sem McKinsey gerði fyrir heilbrigðisráðuneytið. Þar er lagt til að tekið verði upp DRG kerfi þar sem spítalaverk eru kostnaðarmetin. Fjármagn fylgir svo hverju verki. Samhliða er tekið upp gæðakerfi og spítalinn nýtur þess fjárhagslega ef viðmið eru uppfyllt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV

Björn segist hafa reynt að koma þessu kerfi á þegar hann var stjórnarformaður Sjúkratrygginga 2014 en síðan farið til starfa erlendis. 

„Ef þú þarft að ná tökum á spítalanum, biðlistanum framleiðslunni og slíku þá hefurðu þarna tækifæri til að gera það á skynsamlegan og öruggan hátt,“ segir Björn í Kastljósi í kvöld. 

Björn segir að fórnarlambshugsunarháttur einkenni stjórnun spítalanna hér á landi. 

„Í staðinn fyrir að vera stoltur og glaður og gera sem mest þá er það bara já þetta leysist ekki nema með peningum og það eru bara einhverjir vondir fyrir að vilja ekki láta okkur fá peninga. Þannig að það er sterk fórnarlambshugsun í heilbrigðiskerfinu og það má ekki gleyma því að ég held að það sé ekkert sem fólk hugsar viljandi, ég held að það sé bara sá kúltur að vera háður beinum fjárveitingum í staðinn fyrir að vera háður fjárveitingum fyrir það sem þú gerir.“

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV