Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Börnum líður verr í síðari bylgjum faraldursins

Mynd: RUV / RUV
Líðan grunnskólabarna hér á landi hefur farið versnandi, eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Salvör Nordal Umboðmaður barna segir frásagnir þeirra sem safnað var á síðasta ári sýna að þau hafa áhyggjur af mörgu og að mikilvægt sé að ræða við þau um það sem vekur þeim ugg.

Salvör var í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö þar sem hún sagði margt vekja með börnunum áhyggjur og að mikilvægt sé að ræða við þau um það sem vekur þeim ugg. 

„Þau tala um sum um að eiga foreldra í áhættuhópum og eiga afa og ömmu sem þau hafa miklar áhyggjur af og þau geta ekki hitt. Þau hafa áhyggjur af þessari veiru sem fer yfir heimsbyggðina og veldur svona miklum dauðsföllum og miklum veikindum.“

Þau hafi miklar áhyggjur af umhverfinu og loftslagsmálum og því sé mikilvægt að skýra ástandið fyrir þeim. „Það er svo mikil hætta á að þau verði hrædd en þau eru í þeirri stöðu að stjórna engu“, segir Salvör. Áríðandi sé að útskýra hvernig ástandið sé og draga úr hræðslunni. 

Áríðandi að heyra um líðan og skoðanir barna

Salvör Nordal segir að rannsóknin sé liður í því að heyra um líðan barna og skoðanir þeirra á ýmsum málum. Hún segir að embættið hafa safnað frásögnum frá börnum kringum fjármálakreppuna eftir 2008.

Viðbrögðin við rannsókninni í vor hafi verið góð en haft var samband við börn gegnum skólana. Þá hafi fengist áhugaverð svör og þegar þriðja bylgjan skall á þótt ástæða til að endurtaka leikinn. Ekki sé útilokað að gerð verði viðlíka könnun síðar.

Unnið var úr niðurstöðum í janúar en lagt var upp með að fá viðhorf barnanna til þeirra mála sem þau vildu tjá sig um. Í seinni bylgjunni var lagt upp með opnar spurningar, á borð við líðan í skólanum. Það hafi þó ekki verði bindandi.

Salvör segir talsveirt meiri svörun hafa verið í seinni bylgjunni og munurinn sé sá að börnum líður verr nú en í vor. „Þau tala áberandi meira um það. Í vor var búist við átaki í nokkrar vikur eða mánuði og svo yrði þetta yfirstaðið,“ segir Salvör.

Svo virðist vera að fyrir mörgum börnum hafi þetta jafnvel verið kærkomið, meiri ró og meiri samvera með foreldrum. Í seinni bylgjunni, segir Salvör að börnin finni fyrir þreytu og að erfiðleikar geti skapast á heimilum þegar margir vinni heima.

Skólinn er mikilvægur

„Börnin tala líka um að við höfum ekki þurft að loka skólum alveg, þeim var skipt upp í hópa og þau tala um meiri ró í skólastofunni þegar hópar eru minni og minni erill.“

Salvör segir embætti umboðsmanns barna hafa fengið ábendingar um að mikið þurfi að gera við skólahúsnæði vegna hávaða og að vinna þurfi í því, með tilliti til þess.

Hún segir niðurstöðurnar sýna hvað skólinn er mikilvægur fyrir börn, félagslega og námslega. „Börn búa mismunandi heima,  það er ekki alltaf þannig að foreldrar geti veitt aðstoð við námið og því er skólinn svo mikilvægur.“ 

Hún kveðst heyra það frá börnum að nú átti þau sig á hvað skólinn sé mikilvægur, hann sé aðalstaðurinn þeirra og því ríði á að hlú að skólunum.

Niðurstöðurnar í samræmi við annað 

Salvör segir niðurstöðurnar í samræmi við annað, það séu auknar tilkynningar til barnaverndar og fleiri og alvarlegri fyrirspurnir til hjálparsíma Rauða krossins.

„Þetta bætist því ofan á aðrar niðurstöður um að börnum líði ekki nógu vel á Íslandi, eins og vitað hefur verið og talað um í mörg ár.“

Börn og ungmenni tali sjálf um skort á aðgengi að sálfræðingum, þjónustu og ýmsum bjargráðum sem þau hafa nefnt.

Undanfarið hefur verið reynt að efla sálfræðiþjónustu í grunn- og framhaldsskólum, segir Salvör en bendir á að kreppur bitni á kynslóðum og geti orðið langvarandi vandi.

„Það þarf að leggjast yfir hvernig bregðast ber við hvernig er hægt að mæta börnum sem eru á þessum stað.“ Aðspurð segir Salvör börn og ungmenni hafa hafa orðið fyrir miklum breytingum í faraldrinum, hann hefur haft áhrif á ungt fólk.

Öll íþróttaiðkun og annað sem börn og unglingar sækja hefur breyst mjög mikið í faraldrinum. „Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig á að mæta þessari kynslóð á komandi árum“, segir Salvör.

Mikilvæg skilaboð til þeirra sem vinna með börnum

Þessar vísbendingar um að börnum líði verr en áður segir hún vera skilaboð til allra þeirra sem vinna með þeim um að koma þurfi fram við þau í samræmi við það og mæta þeim að því leyti.

Salvör segir mikilvægt að opna fyrir umræðuna heima fyrir, alltaf sé mikilvægt að ræða við börnin og fá fram hvað þau eru að hugsa og leyfa þeim að tjá sig frjálslega um sína líðan og aðstæður.

Salvör segir Barnaþing 2019 hafa sýnt að börn hafa áhuga á öllu milli himins og jarðar. Þau taka mikinn þátt í því sem er í deiglunni og því sé samræða við börn afar mikilvæg.