Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áætlað að sækja megi um viðspyrnustyrki í lok mánaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Nú leggur Skatturinn allt kapp á að mögulegt verði að hefja móttöku umsókna um viðspyrnustyrki um næstu mánaðamót. Lög um viðspyrnustyrki voru samþykkt á Alþingi skömmu fyrir jól.

Lögin gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi á Íslandi, hófu starfsemina fyrir 1. október 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. 

Markmið laganna er að koma til móts við vanda fyrirtækja og einstaklinga í rekstri og búa samfélagið undir það þegar heimurinn opnast að nýju eftir kórónuveirufaraldurinn að því er fram kemur á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Þar segir einnig að flókið og tímafrekt sé að undirbúa umsóknir um styrkina. Sá undirbúningur leggist við þau umfangsmiklu verkefni sem Skatturinn glímir við þessum tíma árs. Þar á bæ er allt kapp lagt á að mögulegt verði að hefja móttöku umsókna um viðspyrnustyrki undir lok mánaðarins.