
Zuma á fangelsisvist yfir höfði sér
Stjórnlagadómstóllinn Suður-Afríku kvað upp þann úrskurð í síðasta mánuði að forsetanum fyrrverandi bæri að mæta fyrir dóm og svara til saka fyrir spillingarmál sem á hann eru borin. Samkvæmt úrskurðinum á hann að koma fyrir rétt í þessari viku.
Raymond Zondo dómari boðaði Zuma til yfirheyrslu í dag, en hann lét ekki sjá sig. Lögmenn hans tilkynntu réttinum að hann ætlaði ekki að mæta þrátt fyrir fyrirmæli stjórnlagadómstólsins.
Jacob Zuma hefur krafist þess að Raymond Zondo segi sig frá málinu þar sem hann gruni dómarann um hlutdrægni. Einnig segir hann að ásakanirnar um spillingu eigi ekki við rök að styðjast. Þær séu runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga.
Fjölmiðlar í Suður-Afríku segja að þolinmæði dómarans sé á þrotum. Hann ætli því að að leita til stjórnlagadómstólsins á ný og krefjast þess að Jacob Zuma verði fangelsaður fyrir beina óvirðingu við réttinn.
Zuma gegndi forsetaembættinu í Suður-Afríku um níu ára skeið. Hann varð að segja af sér fyrir þremur árum vegna sívaxandi ásakana um spillingu.