Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja nýjar kosningar á Grænlandi

15.02.2021 - 18:20
Mynd af vefsíðu KNR, grænlenska ríkisútvarpsin, sem sýnir Erik Jensen og Kim Kielsen.
 Mynd: KNR-grænlenska ríkisútvarpið - KNR
Meirihluti þingmanna á grænlenska landsþinginu vill að efnt verði til kosninga, meira en ári áður en kjörtímabilinu lýkur. Tillaga þessa efnis verður lögð fyrir þingið sem kemur saman á morgun eftir hlé. Stjórn Kims Kielsens missti meirihluta sinn í síðustu viku. Kielsen missti formannsembættið í flokki sínum Siumut í nóvember. Nýjum leiðtoga, Erik Jensen, hefur ekki tekist að mynda nýja meirihlutastjórn.

 

Fjórir stjórnarandstöðuflokkar vilja nýjar kosningar

Leiðtogar fjögurra flokka sem eru í stjórnarandstöðu standa að baki tillögunni um þingrof og nýjar kosningar. Múte B. Egede, leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Inuit Ataqatigiit, IA, sagði í dag að ástandið væri óviðunandi og því yrði ekki komist hjá nýjum kosningum. Að sögn grænlenska blaðsins Sermitsiaq er líklegast að kosið verði í lok mars, en sveitarstjórnarkosningar verða á Grænlandi 6. apríl.