Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tileinkuðu þrífættum ketti lag

Mynd: RÚV / RÚV

Tileinkuðu þrífættum ketti lag

15.02.2021 - 12:52

Höfundar

„Við erum með nóg af ástarlögum til að gleðja fólk og fagna ástinni,“ segir Ragnheiður Gröndal sem kom í Stúdó 12 á Valentínusardag ásamt Guðmundi Péturssyni eiginmanni sínum. Þau fluttu nokkur ástarlög fyrir hlustendur Rásar 2 í tilefni dagsins.

Fyrsta lagið er Ástarþula sem Ragnheiður segist hafa samið til eiginmanns síns. „Ég man eftir að hafa samið þetta þegar ég bjó í Hlíðunum. Ég var með gítar og var búin að hlusta mikið á Ólöfu Arnalds, var undir miklum áhrifum. Textinn er klárlega undirmeðvitundin að yrkja til Gumma,” segir Ragnheiður.

Ragnheiður og Guðmundur syngja mikið í brúðkaupum og þar er einna vinsælast lag Bubba Morthens, Með þér. Ragnheiður gerði ábreiðu af laginu fyrir safnplötu með íslenskum ástarlögum. Hún segist enn hafa gaman af því þótt hún hafi sungið það ótal sinnum. „Maður fattar það sem flytjandi, maður verður bestur í lögunum sem maður syngur oftast. Þetta er svo mikið vöðvaminni. Mér finnst það rosalega gaman,“ segir Ragnheiður.

Þegar Ragnheiður er beðin að spila í brúðkaupum tekur hún Guðmund yfirleitt með sér. „Við vinnum svo mikið saman að mér finnst það skemmtilegra en að vera ein,” segir hún.

Þau hjónin eru mikið kattafólk og segjast verða að hafa ketti á heimilinu. Einn af þeim köttunum þeirra hét Bangsi og var þrífættur. Ragnheiður segir að hann hafi verið hreysiköttur og samdi um hann lag. Birgir Baldursson trommari hafi notað trommutakt í laginu sem henni þótti hreysikattarlegur og því kom ekki annað til greina en að nefna lagið eftir Bangsa.

Eitt þekktasta lag Ragnheiðar heitir Ást. Lagið samdi Magnús Þór Sigmundsson við ljóð Sigurðar Nordals frá árinu 1918. „Ég elska þetta ljóð. Mér finnst þetta svo ótrúlega fallegt, það er svo ríkt af myndmáli. Hann er að vinna mikið með andstæður sem er það sem við erum að leitast eftir í þeim sem við elskum. Við erum að leita til fólks af því það er að vega upp einhverja veikleika í okkur og svo erum við að vega upp eitthvað annað í þeim,” segir Ragnheiður. 

Lögin sem Ragnheiður og Guðmundur fluttu í Stúdíó 12 eru þessi:

1. Ástarþula (höf. Ragnheiður Gröndal)
2. Með þér (höf. Bubbi Morthens)
3. Bangsi (höf. Ragnheiður Gröndal)
4. Ástarorð (höf. Ragnheiður Gröndal)
5. Ást (höf. Magnús Þór Sigmundsson og Sigurður Nordal)
6. Ein stjarna björt (höf. Ragnheiður Gröndal)
7. Alltumkring (höf. Ragnheiður Gröndal)

Hægt er að horfa á tónleikana í heild sinni hér að ofan.