„Þetta er tala sem við getum staðið við“

15.02.2021 - 19:25
Mynd: RÚV / RÚV
Meira bóluefni kemur hingað til lands frá apríl og fram í júní en áður var áætlað og því er stefnt að því að bólusetja 190.000 manns fyrir lok júnímánaðar. Þessar áætlanir miðast aðeins við bóluefni frá Pfizer, Moderna og AstraZeneca. Von er á bóluefnum frá Janssen og fleirum á næstunni. „Þetta er tala sem við getum staðið við og snýst um þessi þrjú fyrirtæki út júní,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra í viðtali í sjónvarpsfréttum.

Aðspurð að því hvort komið verði hjarðónæmi um mitt sumar, kveðst ráðherrann ætla að svara á þann hátt sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, myndi gera. „Það er erfitt að svara því við vitum ekki nákvæmlega hvernig veiran hagar sér og ekki hvernig bóluefni virka. Þessu þarf að vinda fram. Við vitum að það þarf að bólusetja ríklega helming, 60 til 70 prósent eru tölur sem hafa verið nefndar. Þetta er eitthvað sem mun skýrast þegar við förum inn í þennan bólusetningarkafla í baráttunni við faraldurinn.“

Hvað efnahagshorfur varðar þá segir Svandís að þær forsendur ráðist mikið af því hvernig gangi í baráttunni við veiruna en ekki síður hvernig gangi í nágrannaríkjunum. Gert sé ráð fyrir að byggja áfram á ferðaþjónustu og þá þurfi að sjá hvort það sé vilji hjá fólki til að ferðast og hvort opnað hafi verið fyrir landamæri víðar. Ekki sé nóg að aðeins gangi vel á Íslandi, heldur sé þetta verkefni alls heimsins. „Þannig að þetta hangir allt saman.“

Má hugsanlega búast við að það verði nokkuð eðlilegt sumar á Íslandi? „Ég ætla ekki að spá því. Ég ætla hins vegar að segja að þetta lítur betur út en það gerði fyrir nokkrum dögum eða vikum af því að við höfum meira í höndunum og við vorum góð í því í fyrrasumar að ferðast innanlands af krafti og ég býst við að við gerum það áfram á þessu ári, en hvert skref í átt til opnunar og að því að hafa veiruna undir, er skref í áttina að bættum efnahag.“