Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Telur þriðja sæti í Reykjavík verða baráttusæti

Mynd: RÚV / RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur þriðja sæti á listum flokksins í Reykjavíkurkjördæmum verða baráttusæti. Hann sagði í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun bæði hreina uppstillingu á framboðslista og prófkjör annmörkum háð.

Nýtt fólk helli sér síður í prófkjör, staða sitjandi þingmanna sé óneitanlega sterkari. 

Logi kveður ótrúlega góðan mannskap skipa efstu sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Hann gefur lítið fyrir að ólga eða kergja sé innan flokks og vildi frekar nota orðið kraftur, verði sé að virkja mikinn mannauð. 

Næstum alger endurnýjun varð í efstu sætunum eftir uppstillingu en Logi segist ekki viss um að þau 49 sem gáfu kost á sér í könnun flokksins hefðu gefið kost á sér í prófkjör.

Logi segir að Samfylking birti alla lista á næstunni því hann vill að fólkið sem skipar efstu sætin sé tilbúið að taka þátt í mótun kosningastefnunnar.

Áhugavert vorþing framundan

Hann telur að vorþingið verði áhugavert, ríkisstjórnarflokkarnir gætu tekið til við að deila innbyrðis og tala þannig inn í bakland sitt. Logi álítur þó að kosningabaráttan hefjist ekki fyrr um 10. ágúst. 

Mat Loga er að þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmunum verði baráttusæti í kosningunum í haust.

Hann segir eftirsjá að þingmanninum Ágústi Ólafi Ágústssyni og Jóhönnu Vigdísi Guðmundsóttur, varaþingmanni, sem hvorugt tekur sæti á lista flokksins í kosningunum í haust. 

Jóhanna Vigdís sagði sig úr Samfylkingunni fyrir skemmstu enda sagði hún harkaleg skilaboð felast í að nýliðar væru skipaðir í þrjú af fjórum efstu sætunum í Reykjavíkurkjördæmunum.

Logi segist vissulega hafa viljað hafa þau bæði á listum en telur að áherslur þeirra lifi áfram í flokknum. Hann segist jafnframt þess fullviss að Ágúst Ólafur hefði komist inn á þing í þriðja sætinu.

Boðar félagshyggjustjórn með grænar áherslur

Ný heildarstefna flokksins verður að sögn Loga samþykkt á flokkstjórnarfundi í næsta mánuði, sem stefnuskjal fyrir næstu kosningar verði unnið úr.

Stefnan muni staðfesta að Samfylkingin sé miðju- og jafnaðarmannaflokkur. Hann óttast því ekki að hægri kratar muni flykkjast brott úr flokknum.

Formaður Samfylkingarinnar boðar félagshyggjustjórn með grænar áherslur eftir kosningar og ítrekar að hann vilji ekki vinna með Sjálfstæðis- og Miðflokki næst. Það geti þó breyst á komandi árum.

Mat Loga er að ráðast þurfi í atvinnuuppbygginu þar sem hugað verði að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og hið opinbera gert í stakk búið að bregðast við vandamálum eins og við erum í núna.

„Ætlum við að byggja á tveimur til þremur styrkum stoðum sem eru þó með veikleika þegar eitthvað bregst?“ spurði Logi í Morgunútvarpinu.

Hann bætti að Ísland væri í betri stöðu nú en raun ber vitni hefði reglu verið komið á í ferðaþjónustu, hún hefði vaxið stjórnlaust og án regluverks þar sem hún ruddi frá sér öðrum atvinnugreinum.

„Hér er 8% fall í þjóðarframleiðslu en öllu minna í Danmörku og Noregi sem sýnir að atvinnulífið er of einsleitt,“ sagði Logi.

Þörf sé á ríkisstjórn sem getur einbeitt sér að öflugri uppbyggingu í landinu en rífist ekki um einstök frumvörp dögum saman. 

Fréttin var uppfærð klukkan 10:53.