Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að Rio Tinto hafi ekki fengið neinn COVID-afslátt

15.02.2021 - 20:10
Forstjóri Landsvirkjunar segir að enginn COVID-afsláttur hafi verið gefinn í nýjum fimmtán ára raforkusamningi fyrirtækisins við álver Rio Tinto á Íslandi. Forstjóri álversins segir að lokun þess hafi verið afstýrt.

Rio Tinto kvartaði til Samkeppnisstofnunar í fyrra og sagði Landsvirkjun misnota  aðstöðu sína á raforkumarkaði. Fyrirtækið boðaði lokun álversins í Straumsvík, léti Landsvirkjun ekki af háttsemi sinni og undanfarna mánuði hefur álverið ekki verið rekið á hámarksafköstum. 

„Það er bara mjög mikill áfangi fyrir okkur að vera komin með samning sem gerir Ísal samkeppnishæft og búið að bægja þeirri hættu frá að verksmiðjunni verði lokað,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto hér á landi.

Var það í undirbúningi? „Við höfum verið á minnkuðum afköstum um langt skeið og það var verið að vinna að því hvernig væri hægt að framkvæma það. En við erum ekki á því núna, núna förum við að keyra upp verksmiðjuna á fullt og erum ánægð með að þessu hafi verið afstýrt.“

Rannveig segir að nýji samningurinn ætti að auka samkeppnishæfi. Meðal þess sem í honum felst er að raforkuverðið er nú tengt álverði. Verðið á raforkunni er trúnaðarmál en aðspurð segir Rannveig að samningurinn tryggi stöðu álversins. „Við erum orðin samkeppnishæf sem við vorum ekki áður,“ segir Rannveig.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir ánægjulegt að óvissu hafi nú verið eytt. „Það er búin að vera ákveðin óvissa með stöðuna hjá þeim. Þannig að það er mjög ánægjulegt að við séum að gera samning sem ég tel að sé til hagsbóta fyrir bæði fyrirtækin.“

Hörður segir að nýji samningurinn sé öðruvísi samsettur en sá fyrri. „Hann byggir á því að við erum aðeins að breyta verðinu í honum frá því að vera fastverðsamningur alfarið þá er hann að verða að meginhluta fastverðsamningur sem er verðtryggður en er að minnihluta tengdur verði á áli sem gerir álverinu auðveldara að takast á við krefjandi markaðsaðstæður á álmörkuðum.“ 

Rio Tinto er næst stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og kaupir um 20% af orkuframleiðslu hennar. Hörður segir að líklega verði tekjur Landsvirkjunar af nýja samningnum þær sömu og verið hafa. 

Voruð þið að gefa COVID-afslátt? „Nei, en við gerðum það á síðasta ári, við gáfum þeim sérstakan afslátt vegna stöðu á mörkuðum.“

Afhverju má ekki gefa upp hvað þið eruð að selja Rio Tinto raforkuna á? „Þetta er gamall samningur, sem ríkja trúnaðarákvæði um og það þarf að vera samkomulag á milli fyrirtækjanna um hvernig og hvenær hann er birtur.“