Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rafmagnslaust á tíu sveitabæjum og ekki hægt að mjólka

15.02.2021 - 09:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rafmagnslaust er á um sveitabæjum í Fitjárdal í Húnaþingi vestra. Bændur geta ekki mjólkað og það getur skaðað skepnurnar. Bóndinn í Ytri-Valdarási segist verða að geta mjólkað fyrir hádegi svo að kýrnar fái ekki júgurbólgu.

Uppfært klukkan 9.40: Búið er að opna þjóðveg eitt milli Miðfjarðar og Víðidals sem hefur verið lokaður í allan morgun þar sem háspennulínan sem slitnaði lá yfir veginn. Veginum lokað aftur í stutta stund á meðan rafmagnslínan verður tengd á ný. 

Rafmagnsleysið setur kúabændur í vanda þar sem mjaltatæki ganga fyrir rafmagni og því er ekki hægt að mjólka. „Þetta er vont fyrir kýr, kannski nýbærur sem eru nýlega bornar. Þetta má ekki skeika mörgum klukkutímum til þess að þetta geti haft tjón í för með sér fyrir skepnurnar. Þetta er mjög erfitt ef þetta fer yfir þrjá til fjóra tíma,“ segir Axel Rúnar Guðmundsson, bóndi á Ytri-Valdarási í Fitjárdal. Hann gæti þurft að setja í gang varaaflstöð sem er við bæinn.

Einangrarar slitnuðu af rafmagnsstaur við veginn í Fitjárdal. Viðgerðarmenn frá RARIK eru komnir á staðinn. Það gæti tekið klukkutíma eða tvo að gera við. Samkvæmt upplýsingum frá RARIK ættu allir notendur að vera komnir með rafmagn aftur milli klukkan tíu og ellefu. Það komi fyrir að festingar sem þessar gefi sig nokkru eftir að illviðri hafa geisað á Norðurlandi.

Þeir segja að rafmagnið ætti að vera komið á fyrir hádegi, er það nóg? „Það er ekki nóg, við þurfa að bregðast við þessu nú þegar með því að tengja rafstöð. Ég var að vona að þetta kæmi ekki mikið seinna en tíu,“ segir Axel Rúnar. Síðasta vetur var rafmagnslaust í þrjá sólarhringa í hamfaraveðri með rauðri veðurviðvörun. „Það voru kýr hérna sem náðu sér ekki eftir það,“ segir Axel Rúnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV