Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nær uppselt í Hlíðarfjall næstu tvær vikur

15.02.2021 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Hlíðarfjall.is - RÚV
Nær allir aðgöngumiðar að skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar á tímabilinu 18. til 28. febrúar eru að seljast upp. Þessi mikla eftirspurn er til komin vegna vetrarleyfa í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í þessari viku og þeirri næstu. Forstöðumaður skíðasvæðisins segir að síminn hafi hreinlega ekki stoppað.

Síminn hefur ekki stoppað

Mikil aðsókn hefur verið að Hlíðarfjall undanfarnar helgar. Vegna fjöldatakmarkana má aðeins taka við fjórðungi þess fjölda sem venja er að taka á móti. Miðsala fyrir næstu tvær vikur hófst í hádeginu í dag og eru nær allir miðar seldir. Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir að mikið álag hafi verið á tölukerfinu þegar opnað var fyrir miðasölun. 

„Þetta var svakalegt, síminn hefur ekki stoppað og mér sýnist allir miðar sem við settum í sölu fyrir þetta tímabil vera að fara,“ segir Brynjar Helgi. 

Vetrarfrí í grunnskólum næstu vikur

Vetrarfrí hefjast í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í þessari viku. Í Kópavogi er frí í grunnskólum á fimmtudag og föstudag og í Reykjavík á mánudag og þriðjudag í næstu viku. 

Leitt að geta ekki tekið á móti öllum

Brynjar segir leitt að geta ekki tekið á móti öllum sem vilja koma en svona séu reglurnar. „Auðvitað værum við alveg til í að geta tekið við fleirum en reglurnar eru skýrar og við förum eftir þeim. Við megum taka við 25 prósentum og ef það breytist eitthvað setjum við að sjálfsögðu fleiri miða í sölu.“