
Nær uppselt í Hlíðarfjall næstu tvær vikur
Síminn hefur ekki stoppað
Mikil aðsókn hefur verið að Hlíðarfjall undanfarnar helgar. Vegna fjöldatakmarkana má aðeins taka við fjórðungi þess fjölda sem venja er að taka á móti. Miðsala fyrir næstu tvær vikur hófst í hádeginu í dag og eru nær allir miðar seldir. Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir að mikið álag hafi verið á tölukerfinu þegar opnað var fyrir miðasölun.
„Þetta var svakalegt, síminn hefur ekki stoppað og mér sýnist allir miðar sem við settum í sölu fyrir þetta tímabil vera að fara,“ segir Brynjar Helgi.
Vetrarfrí í grunnskólum næstu vikur
Vetrarfrí hefjast í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í þessari viku. Í Kópavogi er frí í grunnskólum á fimmtudag og föstudag og í Reykjavík á mánudag og þriðjudag í næstu viku.
Leitt að geta ekki tekið á móti öllum
Brynjar segir leitt að geta ekki tekið á móti öllum sem vilja koma en svona séu reglurnar. „Auðvitað værum við alveg til í að geta tekið við fleirum en reglurnar eru skýrar og við förum eftir þeim. Við megum taka við 25 prósentum og ef það breytist eitthvað setjum við að sjálfsögðu fleiri miða í sölu.“