Krakkar spila Án þín í bílskúrnum

Mynd: RÚV / Stundin okkar

Krakkar spila Án þín í bílskúrnum

15.02.2021 - 15:02

Höfundar

„Ég byrjaði að æfa á bassa sjö ára ,“ segir Elísabet Hauksdóttir, 12 ára bassaleikari sem er harðákveðin í að gera tónlistina að ævistarfi. Elísabet kemur fram í þáttunum Stundin rokkar. Þar flytur hljómsveit þáttarins klassískan rokkslagara, lagið Án þín, sem Trúbrot gerði frægt.

Í þáttaröðinni Stundin rokkar æfa ungir hljóðfæraleikarar þekkt rokklag og semja sitt eigið lag. Þar er einnig stiklað er á stóru um sögu rokktónlistarinnar. Markús Móri Emilsson gítarleikari, Ragnheiður Helga Víkingsdóttir hljómborðsleikari og Matthías Kristjánsson trommuleikari skipa hljómsveit þáttarins auk Elísabetar.   

„Í æfingaferlinu var okkur hjálpað en við fengum að koma með alls konar hugmyndir alveg sjálf. Við fengum nokkrar vikur til að æfa okkur áður en við fórum í stúdíó að taka upp.“  Hljómsveitin var sett sérstaklega saman fyrir þættina og tónlistarmaðurinn Sigurður Ingi Einarsson æfði með henni og var henni innan handar í öllu ferlinu. Markmiðið með þáttunum er að leyfa ungu og hæfileikaríku tónlistarfólki að láta ljós sitt skína og fræða ungan áhorfendahóp um sögu rokktónlistarinnar.  

„Ég spila líka á píanó en bassinn er mitt hljóðfæri. Mér finnst mjög skemmtilegt að spila tónlist. Ég og vinkona mín Ragnheiður, sem spilar á hljómborð í Stundin rokkar, erum núna saman í hljómsveit, “ segir Elísabet og langar til að sjá fleiri stelpur spila á hljóðfæri í rokkhljómsveitum.   

Stundin rokkar er sýnd í sjónvarpsþættinum Stundinni okkar á sunnudögum kl 18. Alla þættina má finna á krakkaruv.is