Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fékk sprengjusveitina í heimsókn um helgina

Mynd: Bryndís Jóhannesdóttir / aðsend mynd
Bryndís Jóhannesdóttir, grunnskólakennari í Grafarvogi í Reykjavík, fékk óvenjulega heimsókn um helgina sem hún getur reyndar kennt sjálfri sér um. Víkingasveitin og sérhæfð sprengjusveit Landhelgisgæslunnar mætti heim til Bryndísar og skipaði henni að rýma húsið í hvelli. Bryndís sagði frá málinu í Síðdegisútvarpinu í dag.

Bryndís var með gamla handsprengju heima hjá sér. Hana hafði hún fengið frá pabba sínum fyrir löngu en hann var flugkennari á Keflavíkurflugvelli í kringum árið 1970. „Báðir afar mínir unnu þar líka og partur af fjölskyldunni þannig að það var ekkert óeðlilegt að maður sæi svona skrítna hluti þegar maður var lítill,“ sagði Bryndís í Síðdegisútvarpinu, sem telur þó ekki eðlilegt í dag að vera með slíka muni á heimilinu. 

Pinni var enn í sprengjunni

Sprengjunni var hún búin að steingleyma. „Ég var bara að taka til í gömlu dóti, eins og fólk gerir, það tekur til, hendir og selur. Þá rakst ég á hana og var að hugsa hvort ég ætti að selja hana einhverjum safnara en vildi nú kannski athuga fyrst með hana, hún leit óaðfinnanlega út.“ Botninn og pinninn voru enn í sprengjunni svo að hún leit út fyrir að vera ósprungin. „En ég hugsaði þetta ekki alveg til enda. Ég hefði alveg getað beðið fram á mánudag, finnst ég var búin að bíða í þrjátíu til fjörutíu ár með þetta einhvers staðar í kassa. En mér datt bara í hug að senda línu á lögregluna á Facebook og spurði hvert ég ætti að snúa mér til að vita hvort handsprengja væri í lagi eða ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: Bryndís Jóhannesdóttir - aðsend mynd

Skemmst er frá því að segja að lögreglan brást hratt við þegar Bryndís hafði sent þeim mynd af handsprengjunni. Stuttu síðar mættu Víkingasveit lögreglunnar og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar. Þau voru þrjú heima þegar lögreglu bar að garði og þegar Bryndís sagði syni sínum að lögreglan væri mætt og að þau þyrftu að fara strax út, átti hann bágt með að trúa því, enda eru slíkar heimsóknir ekki daglegt brauð hjá fjölskyldunni. 

Handsprengjan reyndist vera óvirk

Lögregla og sprengjusveitin voru á vettvangi í um klukkustund og tóku sprengjuna með sér. Til allrar hamingju reyndist hún þó ekki virk. Bryndís taldi betra að taka hafa ef hún skyldi rekast á hana aftur eftir nokkra áratugi og vera búin að gleyma því hvort hún væri virk eða ekki. „Ég vil ekki þurfa að ræsa þá út aftur, mér finnst þetta leiðinlegt því þeir eru í miklu merkilegri útköllum en að heimsækja konur í Grafarvogi sem eru með handsprengjur heima hjá sér.“

Mynd með færslu