Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðgengi almennings að opinberum skjölum staðfest

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Ísland hefur nú staðfest samning Evrópuráðsins um aðgang að opinberum skjölum, kenndan við Tromsö í Noregi. Þeim ríkjum sem staðfesta hann ber að virða samræmdar lágmarksreglur um upplýsingarétt almennings.

Samningurinn er sá fyrsti þar sem gengið er út frá þeirri almennu meginreglu að almenningur hafi rétt til aðgangs að skjölum í vörslu hins opinbera. Sérstakri nefnd sérfræðinga ber að fylgjast með hvernig samningsríkin uppfylla skilyrði hans.

Ákveðnar reglur gilda einnig um hvernig farið skuli með beiðnir um gögn og sá sem fær höfnun getur krafist þess að úrskurðað verði um rök fyrir synjuninni.

Upplýsingalögum var breytt árið 2019 og því er ekki þörf á lagabreytingum, enda nær upplýsingaréttur almennings til gagna um stjórnsýslu Alþingis og dómstóla, líkt og kveðið er á um í Tromsö-samningnum.

Það var Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, sem tilkynnti framkvæmdastjórn ráðsins um staðfestinguna þann 10. febrúar síðastliðinn.

Tromsö-samningurinn öðlaðist formlegt gildi þegar Úkraína varð tíunda ríkið til að staðfesta hann í ágúst á liðnu ári. Tólf aðildarríki Evrópusambandsins undirrituðu hann í Tromsö 18. júní 2009 en alls hafa átján ríki nú undirritað hann.

Utanríkisráðherra Íslands undirritaði samninginn í Helsinki 16. maí 2019.