Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vonast til að nemendur finni sinn innri listamann

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Vonast til að nemendur finni sinn innri listamann

14.02.2021 - 20:20

Höfundar

Skólastarf í grunnskólum sunnanverðra Vestfjarða hefur verið brotið reglulega upp í vetur með listasmiðjum.

Á meðan krakkar í Bíldudalsskóla gera grímur í myndlistarsmiðju eru krakkar í Tálknafjarðarskóla að nota grímurnar sínar á leiklistarnámskeiði. Birna Friðbjört Hannesdóttir, skólastjóri í Tálknafjarðarskóla, í samstarfi við bróður sinn, Elfar Loga Hannesson leikara vildi efla listir í skólastarfinu og fékk styrk fyrir smiðjunum úr Barnamenningarsjóði: „Ég vonast til að krakkarnir finni sinn innri listamann, og að þau fari að pæla í því og prófa sig áfram.“

Margir listamenn úr mismunandi listgreinum

Í hvert sinn koma listamenn úr mismunandi listgreinunum með sína eigin nálgun. „Við sjáum það strax hvað krakkar eru hneigðir í ákveðna listgrein, þess vegna er svo mikilvægt að þetta sé fjölbreytt. Að við séum að ná til allra,“ segir Birna Friðbjört.

Oft listamenn úr nágrenninu

Leitast er við að fá listamenn til samstarfs sem ýmist búa á svæðinu eða koma þaðan. Raftónlistarmaðurinn Árni Grétar ólst til að mynda upp á Tálknafirði. „Ef einhver hefði komið vestur fyrir svona græju-dellu-kall, strák, eins og mig þá, þá hefði ég orðið svo spenntur, það hefði allavega opnað huga minn upp á gátt þá.“