Var útskúfað í æsku

Mynd: Aðalbjörg Stefanía Helgadótt / Aðsend

Var útskúfað í æsku

14.02.2021 - 10:00

Höfundar

„Þegar eg var barn upplifði ég mikla útilokun,“ segir Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir hjúkrunarfræðingur, „sem varð til þess að ég flutti sama dag og ég kláraði grunnskólagönguna. Þá fór ég upp í flugvél og flutti til Reykjavíkur.“

Aðalbjörg Stefanía vinnur nú að bók um einmanaleika. Hún gaf út bókina Samskiptaboðorðin árið 2016 enda hafa samskipti verið henni hugleikin alla tíð og rekur hún það til barnæsku sinnar. Henni var útskúfað í litla samfélaginu sem hún bjó í og mátti þola gróft einelti.

Vildi helst hverfa

„Ég var aldrei nógu góð. Ég á svona minningar. Það er oft þannig með okkur manneskjurnar að við reynum að gleyma því sem er okkur erfiðast. Það er líka ein leið til að komast í gegnum það,“ segir hún og rifjar upp lýsandi atvik þar sem hún reyndi að láta sem minnst á sér bera til þess að vekja ekki athygli á sér, helst vildi hún hverfa.

„Það er eitt svona augnablik þegar ég var í skólanum í leikfimi, í félagsheimilinu. Var að drífa mig út til að mæta ekki neinum af því ég vissi aldrei hvað myndi koma á móti mér, hvaða skot ég myndi fá. Ég var að klæða mig í skóna og reyna að beygja mig niður svo enginn sæi mig. Ég var mjög upptekin að því að sjást ekki, ég væri hvort sem er svo ómerkileg,“ rifjar hún upp. „Svo þegar ég var að labba út kemur inn hópur af unglingum, ég er þarna í 8. eða 9. bekk. Þá segir forsprakkinn: nei sjáið þið, þarna er eggið! Þeim fannst ég vera með egglaga andlit. Þegar maður er 14 ára þá brýtur þetta niður sjálfsmyndina.“

Þrátt fyrir allt var Aðalbjörg Stefanía alltaf sannfærð um að eitthvað betra biði hennar. „Það var mín leið til að komast í gegnum það, ég var alveg viss um að það væri eitthvað annað sem biði mín. Að ég gæti notað þessa reynslu í eitthvað seinna. Ég vissi ekki hvað, en innra með mér var rosalega rík von.“

Fór ein út á skautasvell og fann að allt yrði í lagi

Þar sem Aðalbjörg Stefanía ólst upp var skautasvell, tjörn sem var ísi lögð á veturna, og krakkarnir léku sér oft þar. Eitt sinn þegar hún var ein að skauta fylltist hún öryggi. „Ég á minningu þar sem eg er þar ein að skauta, á ofsalega fallegu kvöldi, stjörnubjörtu, heiðskírt og ískalt en alveg stillt. Þá var ég alveg viss. Þetta verður allt í lagi, það er alveg ástæða fyrir því að þú þarft að fara í gegnum þetta.” 

Fleiri einmana í heimsfaraldri

Og það gerðist svo sannarlega. Eftir að Aðalbjörg Stefanía eignaðist börnin sín fór hún í hjúkrunarfræðinám. Síðustu árin hefur hún einbeitt sér að ýmis konar samskiptum og rannsakar nú einmanaleika sem hún segir að sé mikið vandamál, á Íslandi séu um 20% prósent alls fólks einmana. Nú á tímum heimsfaraldurs hafi einmanaleikinn fengið aukinn skilning þar sem fleiri eru einmana. 

„Fólk sem er einmana upplifir mikla skömm, það vill enginn vera með mér. Tilheyri ég ekki? Er ég ekki hluti af samfélaginu? Allt í einu voru svo margir farnir að upplifa það sama. Þau voru svolítið þvinguð í að vera ein. Voru að vinna heima. Allt í einu áttaði fólk sig á því hvað það skiptir miklu máli að vera samvistum við fólk,“ segir hún. 

Að finnast maður ekki skipta neinu máli

Einmanaleika fylgja djúpstæðar tilfinningar. „Þetta er þjáning, þau hafa lýst þessu þannig. Þessi skömm. Það er sorg yfir einhverju. Oft sorg yfir að hafa tekið einhverjar ákvarðanir sem valda því að fólk er einmana. Svo er þetta ákveðið hjálparleysi líka. Það vill enginn vera með mér, hvað get ég gert til þess? Þetta er eins og að finnast maður sjálfur ekki skipta neinu máli. Það sé allt eins gott að vera bara einn. Þetta er rosalega djúp þjáning. Fólk talar mikið um það,“ segir hún.

Neikvæð orðræða í eigin garð viðheldur einmanaleikanum

„Á meðan fólk getur ekki fundið leið til að horfast í augu við sjálft sig og vera sátt við sig. Fólk upplifir að það vilji enginn vera með því þá hljóti það að vera ómögulegt og þá heldur fólk áfram að tala sig niður. Svo viðhelst þessi neikvæða orðræða í eigin garð og það viðheldur einmanaleikanum. Upp úr honum getur sprottið þunglyndi með sínum alvarlegustu birtingarmyndum sem eru sjálfsvígin sem við erum að sjá meira af núna en oft áður. Þannig getur einmanakenndin þróast í að vera alvarleg andleg vanheilsa.“

Mikilvægt að við sýnum hvert öðru elsku

Hún segir mikilvægt að líta sér nær og láta náungann sig varða. „Við þurfum að láta okkur hvert annað varða. Að takast á við einmanaleikann er tvíþætt, annars vegar að sá sem er einmana þarf að iðka meiri elsku í eigin garð, hugsa hlýlega til sín, hlúa að sér, fara í göngutúra og þykja vænt um sig. Svo það að okkur þyki vænt hverju um annað. Að við sýnum hvert öðru elsku.“

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Aðalbjörgu Stefaníu Helgadóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Held ég hafi aldrei verið svona hrædd á ævinni“

Menningarefni

„Ég fylltist andstyggð á sjálfum mér“

Menningarefni

„Hefði aldrei trúað að ég myndi upplifa þessa hluti“