Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Max vélarnar snúa aftur til Íslands

14.02.2021 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Tvær Boeing Max-vélar í eigu Icelandair lenda á Keflavíkurflugvelli í dag en þær eru að koma frá Spáni þar sem þær hafa verið í geymslu í eitt og hálft ár. Max-vélarnar voru kyrrsettar í mars árið 2019 eftir tvö alvarleg flugslys þar sem hátt í 350 manns létu lífið.

Slysin voru rakin til galla í vélunum en nú hafa bæði flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu gefið vélunum flugleyfi á ný. Icelandair hyggst taka vélarnar aftur í notkun í vor.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi félagsins segir í samtali fréttastofu að það muni taka einhvern tíma að klára nauðsynlega viðhaldsvinnu og uppfæra búnað vélanna í samræmi við kröfur erlendra flugmálayfirvalda. Icelandair var með sex Max-vélar í notkun þegar þær voru kyrrsettar á sínum tíma. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV