Maður í haldi í tengslum við mannslát í Rauðagerði

14.02.2021 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið mann á fertugsaldri í tengslum við andlát í Reykjavík í nótt. Tæknideild lögreglunnar er enn að störfum á vettvangi. Maðurinn sem lést var sömuleiðis á fertugsaldri. Lögreglan var kölluð að húsi við Rauðagerði um miðnætti í nótt þar sem tilkynnt var um slasaðan mann utan við húsið. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á Landspítalanum.

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn vill lítið gefa upp um málið, enda rannsókn á algjöru frumstigi. Maðurinn sem er í haldi er ekki Íslendingur og ekki heldur hinn látni. Rannsókn á vettvangi, við íbúðarhús í Rauðagerði í Reykjavík, stóð enn yfir um hádegisbilið í dag, sunnudag.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu nú laust fyrir hádegið þar sem segir að lögreglan hafi verið kölluð að húsinu um miðnætti í gærkvöld, en þar var tilkynnt um slasaðan karlmann utan við húsið. „Endurlífgunartilraunir hófust strax á vettvangi og í kjölfarið var maðurinn fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna þangað. Maðurinn var á fertugsaldri,” segir í tilkynningunni. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV