Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Katrín skammar Skattinn fyrir leyndarhyggju

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RUV
Forsætisráðuneytið setur ofan í við ríkisskattstjóra sem vill breytingar á frumvarpi um aukna upplýsingaskyldu á eignarhaldi jarða. Skatturinn vill að leynd ríki um upplýsingarnar en forsætisráðuneytið segir það ganga gegn markmiði frumvarpsins um aukið gagnsæi um eignarráð lands.

Frumvarp um breytingu á jarðalögum felur í sér að þeir sem eiga jarðir eða hlut í þeim, beint eða óbeint, skuli tilkynna ríkisskattstjóra um það. Nýverið var lögum breytt þannig að skylt varð að upplýsa um erlenda eigendur að jörðum. Núna er lagt til að nánar verði kveðið á um þessa upplýsingaskyldu og tilgreint hvers konar upplýsingum beri að skila til ríkisskattstjóra. Þannig á til að mynda að tilkynna um raunverulega eigendur jarða. 

Í umsögn ríkisskattstjóra sem send var atvinnuveganefnd á fimmtudag er lagt til að frumvarpinu verði breytt þannig að sérstök þagnarskylda ríki um þær upplýsingar og gögn sem veitt verða ríkisskattstjóra. Ljóst sé að upplýsingaskyldan sem frumvarpið kveði á um geti falið í sér að jarðareigendur þurfi að afhenda mikið af upplýsingum og gögnum og í þeim geti verið fjárhagsupplýsingar auk annarra viðkvæmra upplýsinga.

Sérstök þagnarskylda væri til þess fallin að tryggja að jarðareigendur skiluðu fullnægjandi upplýsingum og gögnum, segir í umsögninni. Ríkisskattstjóri bætir við að almennt hafi gætt nokkurrar tregðu í þá veru að aðilar veigri sér við að skila inn fullnægjandi upplýsingum og gögnum ef um þau gildir ekki trúnaður og þau kunna að vera afhent þriðja aðila.

Þessu svarar forsætisráðuneytið í umsögn daginn eftir og mótmælir. Þar segir að ráðuneytið leggist eindregið gegn tillögu Skattsins um sérstaka þagnarskyldu, enda gangi hún gegn því markmiði laganna um að auka gagnsæi um eignarráð lands og tilheyrandi gæða.

Forsætisráðuneytið er því ósammála að afdráttarlaus þagnarskylda hvetji eigendur til þess að skila inn gögnum, telur að þvert á móti geti hún haft öfug áhrif. Þá er ríkisskattstjóra bent á að skili jarðeigendur ófullnægjandi gögnum hafi Skatturinn úrræði til að krefja viðkomandi um úrbætur.