Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Høgni Hoydal: Ekki Dana að gera Færeyjar að skotmarki

Mynd: Johannes Jansson / norden.org
Høgni Hoydal, fyrrverandi utanríkisráðherra Færeyja, segir ótækt að Danir ræði án samráðs við NATO um hluti sem geri Færeyjar að skotmarki. Í nýrri áætlun Dana um aukið eftirlit á norðurslóðum er gert ráð fyrir nýrri eftirlitsratsjá á Sornfelli í Færeyjum. Gremja ríkir í Færeyjum og einnig á Grænlandi með að Danir hafi ekki haft samráð við stjórnir og þing landanna áður en tilkynnt var um áætlunina.

Aukið eftirlit með siglingum á flugi á norðurslóðum

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, tilkynnti í síðustu viku að samkomulag hefði náðst á danska þinginu um að verja aukalega sem svarar rúmlega 30 milljörðum íslenskra króna til að fylgjast betur með siglingum og flugi á norðurslóðum. Málið snýst um öryggi ríkissambandsins sagði Bramsen meðal annars. Ríkissambandið, rigsfælledkabet, eru Danmörk, Færeyjar og Grænland.

Óánægja í Færeyjum og Grænlandi

Stjórnmálaleiðtogar í löndum ríkissambandsins í Norður-Atlanthafi eru margir afar óánægðir með að ekki skuli hafa verið ráðgast við þá áður en áætlunin var kynnt. Í henni er meðal annars gert ráð fyrir nýrri eftirlitsratsjá í Færeyjum. Høgni Hoydal, fyrrverandi utanríkisráðherra Færeyja, hefur lýsti í viðtali við Kringvarp Føroya gremju vegna þess að Danir taki þessa ákvörðun án samráðs við Færeyinga.

Ekki var ráðgast við utanríkismálanefndir Færeyja og Grænlands

Hoydal situr í utanríkismálanefnd færeyska Lögþingsins, hún var kölluð saman til fundar um það leyti sem áætlun Dana var kynnt á fréttamannafundi í Kaupmannahöfn. Annika Olsen, sem einnig situr í nefndinni, lýsti óánægju með að hafa frétt í færeyskum miðlum að setja ætti upp ratsjána. Aleqa Hammond, formaður utanríkismálanefndar grænlenska þingsins, lýsti einnig í viðtali við grænlenska ríkisútvarpið óánægju með að nefndin hefði ekki séð tillögurnar áður en þær voru kynntar. Formaður Partii Naleraq og fyrrverandi fjármálaráðherra Grænlands, Pele Broberg, segist hafa frétt af tíðindum í fjölmiðlum.

Bramsen segir Færeyinga jákvæða

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, svaraði spurningum færeyska sjónvarpsins á þann veg að henni skildist að ráðamenn í Færeyjum væru hlynntir áætluninni. Hún vék sér undan nánara svari með því að ítreka að Færeyingar væru jákvæðir og þakkaði svo fyrir komuna á fréttamannafundinn.