Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimsækir öll heimsins lönd án þess að nota flugvélar

14.02.2021 - 19:37
Mynd: Torbjørn Pedersen / Torbjørn Pedersen
Danskur ferðalangur hefur síðustu sjö ár unnið að því að heimsækja öll lönd í heiminum án þess að fara í flugvél. Hann á níu lönd eftir en hefur setið fastur í Hong Kong í heilt ár vegna heimsfaldursins.

„Ég fór frá Danmörku þann 10.október 2013 klukkan 10.10 um morguninn til að heimsækja öll lönd í heiminum í einni ferð án þess að notast við flugvélar. Það átti upphaflega að tala 3-4 ár, en það eru nú sjö ár og þrír mánuðir síðan,“ segir Torbjørn C. Pedersen, ferðalangur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Torbjørn Pedersen

Á þessum sjö árum hefur Pedersen komið til 194 landa. 

„Ef ég næ þessum níu löndum verð ég sá fyrsti í heiminum til að ferðast til allra landa án þess að fljúga,“ segir Pedersen. 

Hann kom hingað til lands árið 2014. Hér má lesa og sjá viðtal sem tekið var við hann á Stöð 2. 

Mynd með færslu
 Mynd: Torbjørn Pedersen

„Það var ekki svo erfitt að komast til Íslands því þau hjá Smyril-line voru hjálpleg og hleyptu mér um borð hjá sér,“ segir Pedersen. 

Fastur í Hong Kong

Margt hefur breyst síðan hann fór af stað, hann starfar til að mynda nú sem góðgerðarsendiherra Rauða krossins á ferðalagi sínu. Löndin níu sem hann á eftir eru flest afskekktar eyjar í Kyrrahafi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík

Og hjá Pedersen eins og öðrum hefur heimsfaraldur sett strik í reikninginn. Hann hefur nú setið fastur í Hong Kong í heilt ár. 

„Ég vonast til að fá bólusetningu sem fyrst en bólusetningar eru eiginlega ekki byrjaðar hér í Hong Kong.“

Mynd með færslu
 Mynd: Torbjørn Pedersen

Aðspurður um hvort hann hafi aldrei langað að gefast einfaldlega upp og fara bara heim til Danmerkur svarar Pedersen: 

„Jú það máttu bóka. Á hverjum degi er sú hugsun til staðar. Og síðustu daga hef ég sérstaklega hugsað hvenær er komið nóg?“

Mynd með færslu
 Mynd: Torbjørn Pedersen

Yfirskrift ferðalagsins var ókunnugur er vinur sem þú hefur ekki hitt áður. Enda hefur fjölgað talsvert í vinahópi Pedersens. 

„Það er dásamlegt að geta litið yfir heimskortið og vita til þess að maður þekki fólk í kannski 150 eða 160 löndum,“ segir Pedersen. 

„Oftast eru manneskjur bara manneskjur og veröldin er ekki eins hræðileg og við fáum stundum á tilfinninguna við að fylgjast með fréttum.“

Á heimasíðu Pedersen má fylgjast með ferðalagi hans. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV