Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekkert smit innanlands, eitt á landamærunum

14.02.2021 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær og nýgengi hefur ekki verið lægra síðan í lok júlí. Margir fóru út að skemmta sér í gærkvöld en lítið var um sóttvarnabrot. 

Eitt smit greindist á landamærunum og beðið mótefnamælingar til að ganga úr skugga um hvort það er nýtt eða gamalt. Níu smit hafa greinst innanlands það sem af er febrúarmánuði og fjórtán á landamærunum. Nýgengi innanlands hefur ekki verið lægra síðan í júlílok, var 2,5 á hverja hundrað þúsund íbúa á föstudag. Samkvæmt tölfræðivefnum Statista er nýgengi í Evrópu hvergi lægra en á Íslandi, að Vatíkaninu undanskildu. Nýgengi á landamærunum hefur ekki verið lægra síðan um miðjan september. 

Staðan batnar í Evrópu

Heilt yfir fer staðan batnandi í Evrópu, nýgengi þar er 350 á hverja hundrað þúsund íbúa og hefur farið lækkandi að undanförnu. Í síðustu vikuskýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópu kemur fram að smit sé enn útbreitt í álfunni og tilfellum fjölgi í átta ríkjum; Búlgaríu, Eistlandi, Grikklandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Lúxemborg og Slóvakíu. 

Fá sóttvarnabrot

Margir fóru út að skemmta sér í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Akureyri í gærkvöld og gekk að mestu vel. Lítið var um sóttvarnabrot á veitingastöðum og öldurhúsum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri fóru í eftirlitsferðir. Á höfuðborgarsvæðinu var ástandið sagt nokkuð gott. Einn veitingastaður var þó ekki enn búinn að loka klukkan tuttugu mínútur yfir tíu í gærkvöld og má búast við kæru. Á Akureyri voru gerðar athugasemdir á einum bar og gestum vísað út uns komið var niður í leyfilegan hámarksfjölda. Aðrir staðir voru með allt sitt á hreinu. Nokkuð var þó um hávaðaútköll á Akureyri og mikið um þau á höfuðborgarsvæðinu.

Þriðjungur allra yfir níræðu fullbólusettur

Nú hafa 5538 verið bólusett að fullu hér á landi, og hjá 8548 er bólusetning hafin. Þriðjungur níræðra og eldri hefur hefur fengið seinni sprautuna. Hlutfall bólusettra er hæst á Norðurlandi og Vestfjörðum, þar sem yfir fimm prósent íbúa hafa fengið að minnsta kosti aðra sprautuna.