Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bráðavannæring blasir við helmingi barna undir 5 ára

14.02.2021 - 18:37
Erlent · hungursneyð · Jemen · UNICEF · Vannæring
Mynd: EPA-EFE / EPA
Bráðavannæring blasir við helmingi allra barna yngri en fimm ára í Jemen. Þau telja um 2,3 milljónir. Fiskverð í landinu hefur hækkað um allt að 80 prósent síðastliðinn mánuðinn vegna stöðugra stríðsátaka.

Jemen er einn versti staður á jörðinni til að vaxa úr grasi. Ótal skýrslur og samantektir hafa verið unnar um málið, en lítið hefur breytst til batnaðar fyrir fólkið sem í landinu undanfarin ár. 

Alia Mohammed Ahmed Hassan er tvítug þriggja barna móðir. Dóttir hennst, Rawan Mohsen er eins og hálfs árs og þjáist af vannæringu. 

„Við borðum eina máltíð á dag, stundum tvær. Við maðurinn minn sleppum því oft að borða svo börnin okkar fái meira,“ segir Hassan.

Um 2,3 milljónir jemenskra barna undir fimm ára aldri munu glíma við bráðavannæringu á árinu. Þar af má búast við að 400 þúsund þeirra muni fá alvarlega bráðavannæringu sem getur dregið þau til dauða. 

„Þetta sýnir að eftir margra ára stríð er jemenska þjóðin komin að þolmörkum. Jemenar geta ekki fætt fjölskyldur sínar og hafa ekki burði til að lifa af án mikils streymis hjálpargagna til landsins í hverjum mánuði,“ segir Corinne Fleischer, hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna. 

Hér má lesa skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um ástandið í Jemen. 

Upphaf stríðsins sem enn geysar er rakið til árása Sáda á Jemen árið 2015. Stríðreksturinn hefur áhrif á alla landsmenn. Innviðir eru laskaðir, vegir til dæmis. Verð á fiski hefur hækkað um allt að 80% síðastliðinn mánuðinn. 

Hér má lesa fréttaskýringu um upphaf stríðsátaka í Jemen. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV