Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðskilnaðarsinnar bæta við sig á katalónska þinginu

14.02.2021 - 23:14
epaselect epa09013202 Candidate of the Catalan ERC left wing pro-independence Catalan party and current Catalan regional vice-president Pere Aragones (L) accompanied by Catalan pro-independent party ERC's President Oriol Junqueras (R) addresses a press conference after a meeting to analyze the first election results by the party in Barcelona, Catalonia, north-eastern Spain, after the Catalonian regional elections, 14 February 2021. With more than 98 per cent of the votes counted, PSC leads the election winning 33 seats, the same as ERC.  EPA-EFE/Alberto Estévez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Flokkar aðskilnaðarsinna auka meirihluta sinn á katalónska þinginu í kosningum til hérðasþingsins í gær. Þegar búið er að telja 99 prósent atkvæða hafa aðskilnaðarflokkarnir þrír hlotið 74 þingsæti af 135, en þeir voru með 70 sæti eftir þingkosningarnar 2017.

Fréttin var uppfærð kl. 9:41 15. febrúar 2021.

Þetta er í fyrsta sinn sem flokkarnir þrír fá samanlagt meira en helming atkvæða. Þeir hlutu samtals 51 prósent atkvæða í kosningunum.

Kosningaþátttaka var heldur dræm í ár og takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins virðast hafa haldið aftur af kjósendum. Kjörsókn var aðeins um 53,5 prósent, en var nærri 80 prósent fyrir fjórum áður.

Sósíalistaflokkurinn er stærsti einstaki flokkurinn með 33 þingsæti, sem er næstum tvöföldun frá síðustu kosningum. Pedro Sanchez, leiðtogi Sósíalista, vonaðist til þess að aðskilnaðarsinnar töpuðu meirihluta sínum.

Litlar líkur eru þó á að Sósíalistar komist að stjórn héraðsins, að sögn AFP fréttastofunnar. Aðskilnaðarflokkarnir þrír gerðu með sér samkomulag fyrir kosningar um að vinna ekki með Salvador Illa, oddvita Sósíalista og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. 

Hófsamasti aðskilnaðarflokkurinn Vinstrilýðveldisflokkur Katalóníu, ERC, hlaut jafn mörg sæti og Sósíalistaflokkurinn, harðlínuflokkurinn Saman fyrir Katalóníu, JxC, hlaut 32 sæti og róttæku aðskilnaðarsinnarnir í Sameiningarflokki alþýðu, CUP, hlutu níu sæti. Pere Aragones, oddviti Vinstrilýðveldisflokksins, er því í kjörstöðu til að leiða næstu stjórn Katalóníu.