Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nokkrir endurráðnir hjá Bláa lóninu

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Bláa lónið hefur ákveðið að opna baðstaðinn og hótel að nýju um helgar. Þá hafa verið endurráðnir nokkrir starfsmenn, sem sagt var upp eftir að faraldurinn braust út. Lítið sem ekkert er að gera hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Fréttastofa hringdi í húsbílaleigu og á tvö hótel til að kanna hvort bókanir fyrir næstu daga hefðu aukist. Svörin voru alls staðar á sömu lund, varla nokkuð bókað. Hins vegar hafi nokkuð af fyrirspurnum borist um bókanir fyrir sumarið og er mikið spurt um hvort unnt sé að afbóka og fá endurgreitt. Þrátt fyrir þessa lægð hafa forráðamenn Bláa lónsins ákveðið að opna að nýju en baðstaðnum var lokað 8. október, segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins. 

„Við fundum síðasta sumar fyrir miklum áhuga á og eftirspurn Íslendinga að koma og heimsækja okkur. Við viljum fylgja því eftir og erum þess vegna að opna um helgar fram á vorið,“ segir Helga.

Auk baðstaðarins verður verslun, veitingastaður og svo hótel opnað að nýju. 

„Við sjáum að bókanir eru fínar og vonumst auðvitað eftir því að fá að taka á móti Íslendingum. Svo erum við farin að sjá bókanir koma inn svona frá og með júní, júlí og út árið,“ segir Helga.

Helga segir að sumarbókunum erlendra ferðamanna hafi fjölgað þegar tilkynnt var um að í maí verði byrjað að taka við vottorðum um COVID-próf á landamærunum.

Ríkið hefur greitt þeim fyrirtækjum sem hafa átt í vandræðum vegna faraldursins, styrk til að greiða hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti. Bláa lónið fékk rúmlega 590 milljónir króna. Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik að hluthafar í Bláa lóninu fengu samtals jafnvirði rúmlega 7,8 milljarða króna í arð frá félaginu á þremur árum fyrir faraldurinn.

Helga segir að ekki hafi verið endurráðið allt það starfsfólk sem sagt var upp eftir að faraldurinn braust út. 

„En við sjáum fram og erum nú þegar aðeins byrjuð að endurráða en tökum það í varfærnum skrefum enda óvissan mikil fram í árið,“ segir Helga.

Þið óttist ekkert að umræðan um Bláa lónið fæli Íslendinga frá því að fara þangað?

„Það vona ég svo sannarlega ekki. Enda sú uppbygging sem hefur átt sér þar stað á heimsmælikvarða,“ segir Helga.