Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Lögregla á ekki að þurfa að slá á putta veitingamanna“

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Yfirlögregluþjónn segir lögreglu ekki eiga að þurfa að segja veitingamönnum til, þeir þekki reglurnar. Eigendur tveggja veitingastaða brutu sóttvarnalög í miðborginni í nótt og lögreglan leysti upp ólöglega útitónleika.

Fyrsta helgin sem krárnar eru opnar

Nú er fyrsta helgin, eftir að krár fengu að opna á ný gengin í garð. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði í gærkvöldi ástandið á 20 veitinga- og skemmtistöðum í miðborg Reykjavíkur og minnti staðarhaldara á að allir þyrftu að vera farnir út fyrir klukkan tíu. Eigendur tveggja staða verða kærðir fyrir brot á sóttvarnalögum og eigendur annars staðanna verða jafnframt kærðir fyrir brot á lögum um veitingastaði. Þá leysti lögreglan upp ólöglega útitónleika. Sá sem stóð á bak við það hefur áður komið við sögu lögreglu fyrir sömu sakir. 

Hrósar þeim sem höfðu hlutina í lagi

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að á báðum veitingastöðunum hafi verið of margir gestir og á öðrum hafi hólfaskiptingu verið ábótavant. Heilt yfir hafi ástandið þó verið nokkuð gott. „Við viljum bara hrósa öllum hinum veitingamönnunum sem virtust bara hafa hlutina í lagi.“ Það séu um hundrað staðir í borginni og víðast hvar virðist allt hafa verið í lagi. 

Ásgeir Þór vill ekki segja hvaða staðir brutu reglurnar í gær. 

Fleiri eftirlitsheimsóknir í kvöld

Lögreglan verður aftur við eftirlitsstörf í kvöld og Ásgeir vonar að heimsóknir kvöldsins verði án athugasemda. „Lögreglan á ekki að þurfa að vera að gera athugasemdir eða slá á puttana á veitingamönnum, þeir þekkja alveg reglurnar og vita alveg hvernig þeir þurfa að hafa þetta til að þetta sé í lagi.“

Fólk vilji halda ástandinu góðu

Ásgeir segist ekki hafa það á tilfinningunni að almenningur sé farinn að slaka um of á sóttvörnum. „Fólk er held ég alveg til í að passa upp á sóttvarnirnar og hafa það ástand sem við erum með á landinu í dag, ég held að fólk sé búið að sjá að það eru bein tengsl þarna á milli, ef við pössum okkur er ástandið gott.“ 

Leiðrétting:  Ásgeir Þór Ásgeirsson var í fyrri útgáfu þessarar fréttar titlaður aðstoðaryfirlögregluþjónn en hann er yfirlögregluþjónn.