Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki óvænt að ungt fólk slappist eftir seinni sprautuna

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Forstjóri Lyfjastofnunar segir viðbúið að aukaverkanir geri vart við sig hjá yngra fólki eftir seinni bólusetningu. Mikill meirihluti skammtanna sem koma hingað á næstu vikum og mánuðum verða frá Pfizer og AstraZeneca. Um fimm prósent þjóðarinnar hafa nú verið bólusett, að hálfu eða öllu leiti.

14.000 Íslendingar búnir að fá vinsælustu sprautu heims

Meira en 5500 Íslendingar eru fullbólusettir og um 8550 hafa fengið fyrri sprautuna. Um 250 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir hafa borist Lyfjastofnun, þar af voru um 160 eftir Pfizer og um 80 eftir Moderna. 16 tilkynningar eru flokkaðar sem alvarlegar, þar af níu andlát. Allar voru eftir Pfizer-efnið, enda var það elsti hópurinn sem fékk það bóluefni. 

Ónæmiskerfið fullræst með seinni bólusetningunni

Töluverður fjöldi lögreglu- slökkviliðis- og sjúkraflutningamanna mætti ekki til vinnu eftir að hafa fengið sprautu númer tvö í vikunni. Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að það hafi verið gert ráð fyrir því að almennar og ekki alvarlegar aukaverkanir yrðu fleiri hjá yngri hópunum og sömuleiðis eftir seinni bólusetningu. 

„Það byggist á því að yngra fólk er með virkara ónæmiskerfi. Það var bara ræsing að hluta til með fyrri bólusetningu og síðan, ef maður getur sagt, að það er búið að fullræsa kerfið í seinni bólusetningu. Og þá koma þessar vægu aukaverkanir fram,” segir Rúna.  

Þessi tilvik eru þó ekki skráð hjá Lyfjastofnun sem möguleg aukaverkun. 

„Það sem er skráð hjá okkur er það sem er tilkynnt inn til okkar. Og ef fólk sér ástæðu sjálft, eða heilbrigðisstarfsmenn, mikið af þessu fólki er náttúrulega heilbrigðisstarfsmenn líka, að tilkynna inn þá kemur það inn til okkar, en það er ekki nema það sér tilkynnt sérstaklega inn til okkar.”

Alheimseftirspurnin vegur þungt

Bólusetningar með með efni frá AstraZeneca hófust hér í vikunni. Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að hætta að nota efnið á einhverjum svæðum þar sem fjórðungur heilbrigðisstarfsfólks sem fékk sprautuna varð veikur daginn eftir. Rúna segir efnið virka vel miðað við mörg önnur og ekki megi gleyma eftirspurninni, sem er töluvert meiri en framboðið. 

„Pfizer og AstraZeneca voru fyrstir á markað og það eru þeir sem eru að ná upp framleiðslunni og auka hana hvað mest. Svo þarna verða flestir skammtarnir, svona næstu vikur og mánuði, sem koma frá þeim,” segir Rúna.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV