Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukið eftirlit Dana á Norðurslóðum

Mynd: Bogi Ágústsson RÚV / RÚV
Danska ríkisstjórnin tilkynnti í gær að samkomulag hefði náðst á þingi um að auka verulega eftirlit á norðurslóðum. Útgjöld til eftirlitsins verða aukin um sem svarar rúmlega 30 milljörðum íslenskra króna. Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, sagði nauðsynlegt að auka viðbúnað hersins til að fylgjast betur með siglingum og flugi á norðurslóðum.

Þrýstingur frá Bandaríkjunum

Samkomulagið snýst um öryggi ríkissambandsins og að við stöndum við skuldbindingar okkar, sagði Trine Bramsen. Danir hefðu skuldbindingar gagnvart Færeyjum og Grænlandi og gagnvart bandamönnum sínum. Fréttaskýrendur benda á Bandaríkjamenn hafi lagt að Dönum að efla varnarviðbúnað á norðurslóðum. Þess er skemmst að minnast þegar Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, lýsti áhuga á að kaupa Grænland af Dönum. 

Hernaðarlegt mikilvægi Grænlands

Grín var gert að Trump fyrir hugmyndina um að kaupa Grænland. Bæði Danir og Grænlendingar brugðust illa við og í kjölfarið móðgaðist Bandaríkjaforseti og hætti við opinbera heimsókn til Danmerkur. Það lagðist illa í marga að fasteignamógúllinn Trump skyldi tala um að eignast Grænland eins og að um hver önnur fasteignaviðskipti væri að ræða. En yfirlýsingar Trumps um hernaðarlegt mikilvægi Grænlands voru hins vegar hárréttar.

Hringingar frá Washington

Peter Viggo Jakobsen, lektor við dönsku Varnarmálaakademíuna og prófessor við Center for War Studies við Syddansk Universitet, sagði í viðtali við danska ríkisútvarpið að hringt hefði verið frá Washington og Dönum sagt að gera eitthvað í málinu. Eftir að Donald Trump var svo vinsamlegur að bjóðast til að kaupa Grænland hafa Danir verið undir miklum þrýstingi að gera eitthvað, sagði Peter Viggo Jakobsen. Jakobsen segir að ríkissambandið, það er að segja Danmörk, Færeyjar og Grænland, geri kröfu til yfirráða á firnastóru svæði utan við strendur Grænlands, til að styrkja þær kröfur verði að sýna fram á nærveru á svæðinu.

Aukið eftirlit, engin vopn

Í áætlun danskra stjórnvalda um aukin viðbúnað á norðurslóðum er ekki gert ráð fyrir neinum vopnabúnaði, heldur gervihnattaeftirliti, stórum drónum sem eiga að fljúga yfir Grænland og ratsjá í Færeyjum. Hún á að fylla í það stóra gat sem myndaðist á milli Íslands og Noregs þegar ratsjá sem var í Færeyjum í kalda stríðinu var tekin niður, segir Nils Christian Wang, flotaforingi og fyrrverandi yfirmaður danska flotans. 

Danir hafa aldrei getað varið Grænland

Fræðimaðurinn Peter Viggo Jakobsen er sammála flotaforingjanum, nú sé aðeins verið að setja upp eftirlitskerfi sem geri fólki kleift að fylgjast með því gerist á yfirráðasvæðum þess, eftirlitstækin geri ekki annað, þurfi að grípa til viðbragða vandist málið, Danir hafi engan viðbúnað til viðbragða, það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir að Danir hafi aldrei getað varið Grænland, það hafi þeir aldrei megnað að gera.

Það hefur alltaf verið vitað að hernaðarlegar varnir Grænlands væru í höndum Bandaríkjamanna og svo væri enn.

Peter Viggo Jakobsen, lektor.

Endurnýjun eftirlitsskipa

Flotaforinginn Nils Christian Wang segir að áætlunin nú sé fyrsta skrefið og hann spái frekari fjárfestingum. Næstu skref séu að endurnýja eftirlitsskip danska flotans við Grænland, þau séu komin á aldur. Skipin sem Wang talaði hér um eru fastagestir í Reykjavík, þau sjá um eftirlit við Færeyjar og Grænland. Þetta eru Thetis, Triton, Vædderen og Hvidbjørnen, sem voru smíðuð fyrir um 30 árum. 

Miðpunktur hernaðarkapphlaups

Mikilvægi norðurslóða eykst, heimskautaísinn bráðnar og hugsanlega verða siglingaleiðir færar yfir norðurpólsvæðið, talið er að miklar auðlindir geti orðið aðgengilegar. Rússar og Kínverjar hafa mikinn áhuga á svæðinu. John Rahbeck Clemmensen, lektor og sérfræðingur í öryggismálum á norðurslóðum, segir einnig að svæðið sé miðpunktur hernaðarkapphlaups stórveldanna.

Áhugi Bandaríkjamanna á sér djúpar rætur

Áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi er ekki nýr af nálinni. Þeir hafa alltaf litið svo á að Grænland sé á sínu áhrifasvæði enda landfræðilega hluti af Norður-Ameríku. Bandarískur herafli kom fyrst til Grænlands í síðari heimsstyrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni komu þeir upp herstöð í Thule á Norður-Grænlandi sem er enn í rekstri. Að kalda stríðinu loknu minnkaði mikilvægið, en áhuginn vestan hafs kviknaði svo að nýju ekki síst vegna vaxandi samkeppni við Kína. Í fyrra var opnuð bandarísk ræðismannsskrifstofa í Nuuk. 

Stóraukin norræn samskipti við Bandaríkin

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifaði í fyrra skýrslu að beiðni norrænu utanríkisráðherranna um öryggissamstarf Norðulanda. Á vefsíðu sinni segir Björn að samhliða tvíhliða samskiptum við Bandaríkjastjórn eigi að stórefla sameiginleg norræn samskipti við bandaríska varnarmálaráðuneytið, einkum með tilliti til norðurslóða. Lloyd Austin, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skrifar Björn, hefur á óformlegan hátt, að minnsta kosti, boðið til viðræðna við bandalagsþjóðir (Dani, Íslendinga og Norðmenn) og samstarfsþjóðir (Finna og Svía) um þróunina á norðurslóðum.

Örygginu ógnað

Það er því ljóst að breytingar eiga sér stað í öryggismálum norðurslóða því eins og Tina Bramsen, varnarmálaráðherra Dana, segir: Öryggi á heimskautasvæðinu og Norður-Atlantshafi er ógnað.