42% grænna fullyrðinga ýktar, rangar eða villandi

13.02.2021 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd: jaylopez - Freeimages
Nærri helmingur fullyrðinga um umhverfisvænar vörur eða þjónustu voru ýktar, villandi eða rangar. Þetta er niðurstaðan úr rannsókn evrópskra neytendastofa á fullyrðingum í markaðssetningu á heimasíðum fyrirtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem Neytendastofa vekur athygli á. 344 fullyrðingar um umhverfisvænar vörur eða þjónustu voru athugaðar og metið hvort fullyrðingarnar stæðust skoðun. Neytendastofa tók þátt í verkefninu ásamt systurstofnunum sínum í Evrópu.

Niðurstaðan var sú að 42 prósent yfirlýsinga voru ýktar, villandi eða rangar og gætu hugsanlega talist ósanngjarnir viðskiptahættir samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Í tilkynningunni segir að svokallaður grænþvottur sé að aukast. Hann gengur út á að skapa ímynd meðal neytenda um að vörur séu umhverfisvænar án þess endilega að vera það. Slíkt getur haft áhrif á kauphegðun fólks því samkvæmt nýlegri könnun telja 78 prósent neytenda að umhverfisáhrif heimilistækja séu mjög eða nokkuð mikilvægur þáttur í vali á vöru. Samkvæmt könnuninni var ekki hægt að meta sannleiksgildi eða réttmæti fullyrðinga í 58 prósentum tilfella. Í 37 prósentum tilfella voru notuð óljós hugtök eins og umhverfisvæn, vistvæn eða sjálfbær.

Á Íslandi voru algengustu grænu fullyrðingarnar kolefnishlutleysi og kolefnisjöfnun. Aðsögn Neytendastofu voru fullyrðingarnar settar fram með skýrum hætti en skorti á fullnægjandi upplýsingar til að sannreyna fullyrðingarnar, svo sem með umhverfsvottunum eða öðrum gögnum. Neytendastofa metur í framhaldinu hvort aðgerða sé þörf.