Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrettán listabókstafir á skrá en færri framboð í haust

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Dómsmálaráðuneytið hefur úthlutað þrettán stjórnmálasamtökum listabókstaf. Ellefu framboð eru á lista ráðuneytisins sem varð til eftir kosningarnar 2017, eitt bættist við 2019 og það þrettánda í janúar 2021. Ekki er þó víst að þau verði öll á kjörseðlum í alþingkosningum í september.

Björt framtíð verður ekki í boði 

Björt framtíð, sem hefur listabókstafinn A, var stofnuð árið 2012, bauð fram í kosningum 2013 og fékk sex þingmenn kjörna.

Flokkurinn settist í ríkisstjórn eftir kosningarnar 2016 en sleit ríkisstjórnarsamstarfinu 2017 vegna „uppreistar-ærumálsins“ svokallaða.

Flokkurinn náði ekki manni inn á þing í kosningunum það ár. Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður flokksins segir í samtali við fréttastofu að flokkurinn muni ekki bjóða fram í þingkosningunum í haust. 

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn - þverpólítískur hópur

Frjálslynda lýðræðisflokknum með Guðmund Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðing, í broddi fylkingar var úthlutað listabókstafnum O í janúar. Flokkurinn hefur gefið út að hann hyggist bjóða fram í öllum kjördæmum.

Guðmundur segir í samtali við  fréttastofu að uppstillingarnefnd vinni hörðum að undirbúningi lista fyrir kjördæmin öll. „Þetta verður þverpólítískur hópur sem vill hag þjóðarinnar sem mestan,“ segir Guðmundur.

Hann álítur að ágreiningur um stjórnarskármál og hálendisþjóðgarð ásamt skorti á bóluefnum vegna COVID-19 verði til þess að kosið verði í maí næstkomandi en ekki september eins og fyrirhugað er.

„Við viljum mynda þjóðstjórn eftir kosningar til að komast út úr kófinu. Það þarf að hugsa um efnahagslífið,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson.

Alþýðufylkingin - betra að vinna málstað með öðrum hætti

Þorvaldur Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar, sem hefur listabóksafinn R, segir niðurstöður landsfundar 2018 standa að ekki verði stefnt á framboð í þing- eða sveitarstjórnarkosningum. Alþýðufylkingin var stofnuð 2013 og hefur oft boðið sig fram síðan þá.

Landsfundur flokksins verður haldinn á vormánuðum, sem Þorvaldur gerir ekki ráð fyrir að breyti neinu um þá ákvörðun. „Okkar sjónarmiða og sérstöðu er þörf en hins vegar hefur lítið upp á sig að stilla upp listum ef áhuginn fyrir framboðinu er lítill,“ segir Þorvaldur.

Betra sé að vinna málstaðnum brautargengi með öðrum hætti, því flokkurinn hafi verið stofnaður utan um hugmyndir og stefnur en ekki bara það að komast í framboð.

Dögun ætlar ekki í framboð en vinnur að málefnum sínum

Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði hafa listabókstafinn T.  Stofnendur voru meðal annarra fólk úr Hreyfingunni, Borgarahreyfingunni og Frjálslynda flokknum.

Samtökin buðu fram í alþingiskosningum 2013 og 2016 án þess að koma að manni. Helga Þórðardóttir, formaður samtakanna, gerir ekki ráð fyrir framboði í haust en ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun um það enn.

Hún segir miðstjórnarfund verða haldinn fljótlega. „Ég met landslagið þannig að ekkert verði farið í framboð. Þó er verið er að vinna að málefnunum, við héldum til dæmis fund um samfélagsbanka í gær,“ segir Helga.

Helga telur að ekki verði heldur horft til þátttöku í sveitarstjórnarkosningum næsta vor. 

Frelsisflokkurinn hefur hug á framboði í öllum kjördæmum

Stjórn Frelsisflokksins, sem hefur listabókstafinn Þ og var stofnaður 2017, hefur fullan hug á að bjóða fram í öllum kjördæmum að því er segir í yfirlýsingu frá flokknum.

Framboð hafi þó ekki verið ákveðið enn. „Stjórn flokksins mun fara yfir málin fljótlega og taka ákvörðun um framhaldið“. 

Húmanistaflokkurinn ekki í framboði í haust

Húmanistaflokkurinn, sem var stofnaður 1983 undir heitinu Flokkur mannsins, bauð ekki fram 2017. Flokkurinn hafði upphaflega listabókstafinn M og síðar H og  bauð fram 1987, 1991, 1999 og 2013 að sögn Júlíusar Valdimarssonar talmanns flokksins. 

Þar sem flokkurinn bauð ekki fram 2017 þarf hann að sækja um nýjan listabókstaf til dómsmálaráðuneytisins. Júlíus segist ekki gera ráð fyrir að flokkurinn verði með í kosningunum í haust. Hann vonast þó til að fá stafnum H úthlutað þegar til framboðs kemur að nýju.

Allir flokkar á þingi undirbúa kosningar

Þeir flokkar sem nú eiga menn á þingi undirbúa allir framboð til kosninganna í haust. Það eru Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, Samfylkingin, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins, Píratar og Viðreisn. 

Sósíalistaflokkur Íslands hefur boðað framboð í öllum kjördæmum en ekki fengið úthlutað listabókstaf. 

Skrá dómsmálaráðuneytis yfir listabókstafi skal birta með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Séu kosningar fyrirskipaðar með svo stuttum fyrirvara að þetta verði ekki gert er auglýsingin birt innan þriggja sólarhringa.